148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir að hefja þessa umræðu og gefa mér tækifæri til að koma hingað aftur til að ræða Bankasýslu ríkisins. Ég spurði í morgun hæstv. fjármálaráðherra um Bankasýslu ríkisins og benti á ákvæði 9. gr. laga um Bankasýsluna. Það er rétt að hæstv. forsætisráðherra ræði þetta mál einnig við okkur í þessari umræðu.

Ég ætla aftur að lesa 9. gr. laga um Bankasýslu ríkisins sem ber yfirskriftina Lok starfseminnar, með leyfi herra forseta:

„Stofnunin skal hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður.“

Gildistaka þessara laga var 20. ágúst 2009. Bankasýsluna átti þá að leggja niður 20. ágúst 2014, en mér skilst að hún sé enn þá starfandi. Af fréttum á heimasíðu hennar ber glögglega á því að hún er að selja banka, skipa í stjórnir banka o.s.frv.

Hvað þýðir þetta? Ráðherra svaraði í morgun með því að segja að þetta lýsti þeim áformum að Bankasýslan hefði ákveðinn líftíma. Lýsir þetta einhverjum áformum? Hana skal leggja niður, stendur þar, „og verður hún þá lögð niður“. Eru þetta einhver áform? Þetta getur ekki verið skýrara.

Ég ætla bara að benda ykkur á það að að mínu mati ríkir fullkomin óvissa um alla löggerninga sem Bankasýsla ríkisins hefur staðið að frá árinu 2014, þar á meðal sölu Bankasýslunnar á Arion banka í lok febrúar sl. Þetta er bara eins og að leggja á skatta eða refsingar. Ef lögin eru skýr um að þessu ástandi sé lokið leggur maður ekki á skatta. (Forseti hringir.) Skattgreiðendurnir myndu ekki samþykkja það og við myndum heldur ekki refsa á grundvelli ákvæðis þar sem gildistíminn væri liðinn.