148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka þessa áhugaverðu umræðu. Ég er einmitt í hópi þeirra sem kunna hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sérstakar þakkir fyrir hvernig haldið var á gerð stöðugleikasáttmálans og það hvernig tókst að vinna úr stöðu varðandi bankakerfið og á endanum afnám hafta og að verja hagsmuni ríkisins í þeim efnum. Ég held að það sé alveg óumdeilt að niðurstaða þeirra samninga hafi verið mun betri og hagfelldari fyrir ríkið en menn þorðu almennt að vona á þeim tíma.

Ég held að það sem við stöndum frammi fyrir núna sé hins vegar rökrétt framhald af þeim samningum. Ég hef ekki enn séð ástæðu til einhverra sérstakra inngripa af hálfu ríkisins núna. Mér þætti reyndar miklu áhugaverðara að skoða hvernig haldið var á málefnum bankanna 2009 af þáverandi ríkisstjórn. Það var að mínu viti alveg einstakt klúður en sem tókst að mörgu leyti að laga með stöðugleikasáttmálanum á sínum tíma. Það er þó alveg ljóst að ríkisstjórnin gaf frá sér forræði á endurskipulagningu efnahagslífsins á sínum tíma sem er efni í sérstaka umræðu. Ég held hins vegar að það sé engin skynsemi í því á þessum tímapunkti að ríkið leysi til sín þriðja bankann. Ég held að við ættum frekar að vinna að því að selja þá tvo eða a.m.k. drjúgan hluta þeirra tveggja banka sem ríkið á núna.

Ég get ekki séð þá tímalínu sem dregin var upp í stöðugleikasáttmálanum með öðrum hætti en að einmitt hafi verið gert ráð fyrir því að að sölu bankans kæmi núna. Í þeirri umræðu virðist líka sem það sé ekkert sérstakt kapphlaup um kaup á bankanum. Raunar hefur gengið frekar illa að selja hann þannig að ég (Forseti hringir.) er efins um fullyrðingar um að þarna liggi mikil og dulin verðmæti sem ríkissjóður fari með einhverjum hætti á mis við.