148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég verð hér í byrjun ræðu minnar að fá að minna hæstv. forsætisráðherra á það að í byrjun árs 2017, sennilega í mars, ég er nú ekki með dagsetninguna nákvæmlega, þá bókaði hún ásamt öðrum fulltrúum þá í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar mótmæli við því að sýnt hefði verið fram á að forkaupsréttur ríkisins hafi ekki virkjast. Þetta rifjast hér með upp þannig að því sé haldið til haga.

Það er eitt atriði sem ég vil koma sérstaklega inn á hér á þessum knappa tíma sem var flestum óljóst þar til nýlega, það er að ríkissjóður hafi staðið í lágmarksstarfsemi vil vogunarsjóða á árunum eftir hrun. Lánastarfsemi var færð í þann búning að um væri að ræða hlutafjáreign í Arion banka upp á 13%, eignarhlutur sem var skilgreindur á móti fjárframlagi upp á 9,9 milljarða árið 2009.

Hvað kom svo í ljós núna fyrir rúmum hálfum mánuði síðan þegar kröfuhafar vildu nýta sér kauprétt sem vísað var til í samningi frá 2009, samningi sem á að færa rök fyrir að hafi raknað upp við stöðugleikasamningana sem stokkuðu upp spilin á málinu öllu á árinu 2015? Það sem kom í ljós var að um lán var að ræða, lán til erlendra vogunarsjóða á árinu 2009, hreinlega ótrúlegur gjörningur. Þegar á reyndi fór um uppgjörið eins og um hvern annan lánagerning væri að ræða. Ríkið fékk endurgreiddan höfuðstólinn með vaxtaálagi sem nam 5% álagi á tiltekinn flokk ríkisskuldabréfa. Til að undirstrika að um lán var að ræða var arðgreiðsla sem ríkið hefði fengið vegna eignarhlutarins dregin frá — ég ítreka dregin frá uppgjörstölunni. Ég þekki engin dæmi þess að farið hafi um uppgjör á hlutabréfaviðskiptum þar sem um var að ræða raunveruleg viðskipti með hlutabréf með viðlíka hætti.

Ég verð því að spyrja: Stóð ríkissjóður í sambærilegum lánveitingum til fleiri aðila á árinu 2009 og árunum þar á eftir? Hvaða heimildir lágu þar að baki? Hver tók ákvörðun um þessa lánveitingu og það hvernig hún var framkvæmd? (Forseti hringir.)

Að endingu vil ég segja: Auðvitað gengur hlutverk okkar út á það hér að verja ítrustu hagsmuni ríkissjóð og það er skylda okkar allra og við verðum að standa í lappirnar hvað það varðar.