148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og hér hefur verið rakið grundvallast eignatengsl ríkissjóðs við Arion banka á hluthafasamkomulagi milli ríkisins og bankans sem gert var 3. september haustið 2009. Svo koma stöðugleikasamningarnir sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gerði við kröfuhafa í slitabú bankanna. Bankasýslu ríkisins sem fer með hlut ríkisins var falið að kanna stöðu samkomulagsins með tilliti til kaupréttarins. Niðurstaðan er sú að Kaupskil hafi einhliða, ótvíræðan og fortakslausan samningsbundinn rétt til að kaupa eignarhluta ríkisins í Arion banka. Vangaveltur málshefjanda á borð við þær sem hann hefur sett fram um að fara aðrar leiðir hefðu getað átt við þegar þetta samkomulag var gert en eiga alls ekki við nú. Hann hafði sem sagt tækifæri til að fara aðrar leiðir en kaus að gera það ekki.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson getur auðvitað velt því fyrir sér sjálfur hvort heppilegra hefði verið að önnur leið hefði verið farin við gerð stöðugleikasamkomulags við Arion banka í hans forsætisráðherratíð og greint þingheimi og almenningi frá niðurstöðu sinni ef honum finnst líklegt að þær upplýsingar komi að einhverju gagni. Úr því verður svo sem varla annað en einhvers konar æfingar í sagnfræðilegri óskhyggju því að það sem gert var skiptir máli, en ekki það sem ekki var gert.

Núverandi stjórnvöld eru bundin af þeim ráðstöfunum sem gerðar voru og fyrir þau er meginatriðið að standa við gerða samninga og fylgja málum eftir á þann hátt að niðurstaðan verði almenningi hagfelld og það hefur verið gert í hvívetna. Það má vera okkur öllum gleðiefni og vitaskuld einnig málshefjanda að svo vel hefur tekist til við samningagerð vegna fallinna fjármálafyrirtækja og endurreisn íslensks efnahagslífs eftir hrunið að staða þess er nú hreint með ágætum. Samningarnir um fjármögnun ríkisins á Arion banka haustið 2009 og þeir skilmálar sem þá voru settir skila almenningi fjármunum ríkisins aftur með prýðilegri ávöxtun. Stöðugleikaframlög bankans, afkomuskiptasamningur og aðrar eignir sem falla til ríkisins við sölu á bankanum eru einnig mikilla fjármuna virði. Í heild er staða málsins því góð þegar hún er metin út frá hagsmunum almennings.