148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[14:01]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Fyrir tæpum áratug gekk Ísland í gegnum eitt stærsta efnahagslega hrun sem nokkur þjóð hefur gengið í gegnum. Ef gjaldþrot íslensku bankanna þriggja væri tekið saman væri um að ræða þriðja stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna. Við erum hér 340 þúsund en Bandaríkjamenn eru 330 milljónir. Tapið sem gjaldþrot íslensku bankanna orsakaði var geigvænlegt og sé það uppreiknað nemur það helmingnum af allri Marshall-aðstoðinni. Þá á ég við Marshall-aðstoð Bandaríkjanna til allrar Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld en ekki einungis Marshall-aðstoðina sem hingað barst.

Ég þarf ekki að rifja hér upp að Marshall-aðstoðin byggði upp Evrópu úr rústum eins mesta tortímingarstríðs sem mannkynið hefur upplifað. Því segi ég, herra forseti: Sporin hræða. Þau hræða þegar kemur að meiri háttar breytingum á eignarhaldi bankanna. Í sjálfu sér sé ég enga sérstaka ástæðu fyrir ríkið að eiga eignarhlut í Arion banka, hvað þá þegar það er tryggt að íslenska ríkið eigi áfram a.m.k. einn af stóru bönkunum, eins og Landsbankann. Hins vegar þarf söluferli stórra eignarhluta í bönkunum að vera gagnsætt og hafið yfir allan vafa. Það þarf að vera ljóst með hvaða hætti hlutir eru verðmetnir og hvaða samningsskilyrði eru uppfyllt. Það þarf að tryggja að hagsmunir almennings séu ekki fyrir borð bornir á sama tíma og samningar eru virtir. Þá þarf að tryggja að eignarhald á stórum kerfislega mikilvægum bönkum sé með eðlilegum hætti en eignarhald vogunarsjóða sem hafði skammtímagróðasjónarmið að meginmarkmiði er ekki æskilegt að mínu mati.

Fjármálafyrirtæki eru ekki eins og hver önnur fyrirtæki og endurspeglar löggjöf okkar það víða. Þess vegna er sérstaklega ánægjulegt að þetta mál muni koma til skoðunar hjá fjárlaganefnd Alþingis að ósk hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Er það vel.