148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[14:03]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á einni fullyrðingu: Stöðugleikasamningar sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, undir forsæti hv. málshefjanda, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, voru bæði pólitískt og efnahagslegt afrek. Þessir samningar voru gerðir seinni hluta árs eða undir lok árs 2015. Gengið var frá þeim í ársbyrjun 2016 og skila þeir okkur líklega um 458 milljörðum í ríkissjóð, mun meira en við reiknuðum með. Virðisaukningin á tveimur árum er 74 milljarðar króna eða svo. Ríkissjóður eignaðist Íslandsbanka sem hluta af stöðugleikaframlagi þrotabús Glitnis. Ríkissjóður gat eignast Arion banka en tekin var ákvörðun, sem var skynsamleg, að draga úr áhættu ríkisins af eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum. Ríkissjóður hélt eftir 13% hlut og fékk 84 milljarða skuldabréf og fær síðan allt að 70% hlutdeild í verðmæti söluverðmæti bankans þegar fram líða stundir.

Ég fæ ekki betur séð en það hafi verið rétt ákvörðun. Með afkomuskiptasamningnum og öllu öðru töldu stendur ríkissjóður frammi fyrir því að nettótekjur verði um 151 milljarður og jafnvel gott betur, af Arion banka. Stöðugleikasamningarnir sem gerðir voru í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa gjörbreytt stöðu efnahagsmála á Íslandi — gjörbreytt.

Ég fullyrði að þeir hafi lagt grunninn að því að við getum sótt hér fram. Við erum að njóta þeirra ávaxta og við höfum séð að samhliða skynsamlegum tökum á rekstri ríkisins höfum við nýtt þessi stöðugleikaframlög til að greiða niður skuldir og vaxtakostnaður ríkisins hefur lækkað um 27–28 milljarða króna á nokkrum árum. Það er afrek og við eigum að hafa það í huga.