148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[14:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að þessum umræðuefnum eru oft haldnar ræður með fullyrðingum, stundum með tölum og stundum með orðum og ekki alveg augljóst hvert samhengið er eða hvað það þýðir í fljótu bragði. Þetta eru þannig mál að það þarf oft að kynna sér þau frekar vel. Það þarf oftar en ekki einhverja yfirlegu. Stundum er hreinlega þörf á sérfræðiþekkingu eða í það minnsta þörf á því að fá sérfræðiþekkingu sér til aðstoðar til að finna út úr því hver fjárinn sé í gangi. Slík ferli eru í eðli sínu ógegnsæ og þá er meiri þörf á því heldur en í öðrum málum að við reynum að skapa gegnsæi eftir fremsta megni og þarf að vera meiri skilningur á því og meiri metnaður hjá okkur til þess að veita þetta gegnsæi.

Hins vegar hefur mér líka þótt í þessum málum svolítið mikið kallað eftir því að menn sýni svokallaðan kjark eða hugdirfsku eða eitthvað því um líkt, einhver svona karlmennskuleg, rómantísk gildi. Mér hefur sjaldan fundist skortur á því þegar kemur að fjármálum almennt á Íslandi eða annars staðar. Mér finnst meiri skortur á dómgreind og þekkingu. Það er þannig sem mér finnst að við eigum að nálgast þetta frekar en að stinga upp á því að það sé skortur á hugrekki sem geri það að verkum að ríkið hyggst t.d. standa við sína samninga varðandi kauprétt. Það er ekki spurning um hugdirfsku, það er spurning um dómgreind, spurning hvort það sé góð hugmynd eða ekki. Ekki spurning um það hversu hugrakkur maður sé, hversu mikið maður er til í slaginn. Það skiptir máli að fólk taki réttar ákvarðanir og til þess þarf að íhuga hlutina og skilja þá til enda. Ég hef áhyggjur af því að umræðan hérna afvegaleiði frekar en að hún varpi ljósi á hlutina.

Umræða eins og þessi er eðlilega smekkfull af tortryggni og ástæðan er sú að það er ærið tilefni til. Sporin hræða. Við þekkjum söguna. Það eru annarlegir hagsmunir víða í okkar samfélagi, það er bara þannig. Við eigum ekki að láta eins og það geti einhvern veginn ekki verið. (Forseti hringir.) Það eru spurningar hér. Fyrrverandi aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra er núna hinum megin á borðið. Af hverju? (Forseti hringir.) Það eru eigendur að kaupa af sjálfum sér. Af hverju? Þeir kaupa 9,99% þegar það þarf 10% til að (Forseti hringir.) það verði skoðað hvort þeir séu hæfir. Af hverju? Það eru svör við þessum spurningum, virðulegi forseti, og ekkert þeirra er þægilegt.