148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[14:11]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í Arion banka málinu eru ýmis atriði sem hafa á sér heldur óþægilegan blæ og sýnast ekki fallin til þess að auka tiltrú eða traust. Ég hef ekki tíma til að nefna nema örfá dæmi hér. Fyrir það fyrsta liggur fyrir í málinu að við mat á verðmæti á 13% eignarhlut ríkissjóðs var ekki metið verðmæti mikilvægra fyrirtækja sem eru í eigu bankans, eins og Valitors og annarra kjörgripa, leyfi ég mér að segja, sem eru innan búðar í þessum banka, heldur var stuðst við reikniformúlu í hluthafasamkomulagi frá árinu 2009. Ekki er einu sinni borið við að kynna hverjar hefðu orðið niðurstöður verðmats þar sem tekið hefði verið tillit til þessara þátta. En eins og menn vita er í þessum vísindum mest lagt upp úr því að beita fjölbreyttum aðferðum og bera saman til þess að fá raunhæfar hugmyndir um hvert raunhæft verð er á eignarhlutum af þessu tagi.

Það er óþægileg sú leynd sem hvílir yfir eignaraðild mikilvægra eigenda að þessum banka sem þarflaust er að rekja þegar vogunarsjóðirnir eru annars vegar. Í þriðja lagi sýnist lítið viðnám vera innan stjórnkerfisins gagnvart ágengum eigendum, eins og sést best af því að það vafðist ekki fyrir Fjármálaeftirlitinu að veita þessum aðilum heimild til að fara með virkan eignarhlut í kerfislega mikilvægum banka á Íslandi þegar aðalskilyrði laganna sem liggja þar til grundvallar eru gott orðspor. Ekki er að sjá að það eigi við um alla þá aðila sem þarna eiga hlut að máli. En hún hlýtur að vekja mikla athygli sú ábending hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, sem hér hefur komið fram ítrekað í dag, að í ljósi skýrra ákvæða í lögum um Bankasýslu ríkisins, 9. gr., þá ríkir fullkomin efi um lögmæti löggerninga sem bankinn hefur átt hlut að allt frá árinu 2014.