148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[14:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að tala um það sem ég vildi eiginlega frekar að við værum að tala um þegar við erum að tala um bankakerfið á Íslandi. Við erum með vaxtamun við nágrannalönd okkar sem kostar íslensk heimili og atvinnulíf 200–300 milljarða á ári — á hverju ári — og við ræðum aldrei um hvernig við ætlum að laga þetta. Það má eiginlega ekki nefna á nafn lengur hvað krónan kostar okkur eða hvað peningastefnan kostar okkur. Mér sýnist atvinnulífið og hagsmunasamtök þess meira að segja hætt að tala um þennan kostað. Okkur getur greint á um hvort lausnin eigi að felast í Evrópusambandsaðild, upptöku annarrar myntar með þeim hætti eða einhliða eða endurskoðun peningastefnunnar, en við getum ekki flúið umræðuna. Við horfumst í augu við þennan kostnað á hverju ári. Heimilin horfast í augu við þennan kostnað og við þurfum að finna lausn á þessu. Um það á umræðan um bankakerfið að snúast.

Hvernig ætlum við að hafa skipulag fjármálakerfisins fram á veginn? Mér sýnist þessi ríkisstjórn hafa skotið því máli í nefnd og hún mun væntanlega skila þeirri niðurstöðu einhvern tímann þegar hillir undir lok þessa kjörtímabils. Það eru sirka 600 milljarðar sem við munum borga þangað til í aukið vaxtaálag.

Hvernig ætlum við að auka samkeppni í fjármálakerfinu þannig að samkeppni skili sér í lægri vaxtakostnaði til heimila og fyrirtækja? Hvernig metum við áhrif innflæðishaftanna sem við í efnahags- og viðskiptanefnd höfum fengið skýran vitnisburð um að hækkar vaxtakostnað fjármálafyrirtækjanna sjálfra en líka alls atvinnulífs í landinu og almennings? Við sjáum að áhrifa af vaxtalækkunum seðlabanka á undanförnu ári eða einu og hálfu ári gætir ekki í óverðtryggða vaxtarófinu hjá okkur út af innflæðishöftum sem eru út af ónýtri peningastefnu, að mínu viti.

Um þetta eigum við að taka umræðuna, þetta þurfum við að endurskoða. Það er þetta sem skiptir atvinnulífið og heimilin langmestu máli. 200–300 milljarða kostnaður í vaxtamun á ári er engir smáaurar. Ég skil (Forseti hringir.) ekki af hverju við verjum ekki meiri tíma í að ræða það miðað við margt annað sem við ræðum í þessum virðulega sal.