148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[14:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Háæruverðugi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera reiðubúin að koma í þessa umræðu í dag og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir mjög góða og málefnalega umræðu og vona að við getum byggt á því samtali sem hefur átt sér stað hér í dag.

Ég vil gera eina athugasemd, ég hef ekki tíma fyrir fleiri, við ræðu hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg hárrétt sem forsætisráðherra bendir á að það hefði verið hægt að fara sömu leið varðandi Arion banka og gert var með Íslandsbanka, þ.e. ríkið tæki einfaldlega við bankanum. En aðrir en ég, ég hefði viljað fara þá leið, höfðu áhyggjur af því að þá væri ríkið með bankakerfið allt í fanginu, eins og það var orðað, alla bankana samtímis. Mér heyrist reyndar að hæstv. forsætisráðherra sé nú farin að deila þeim áhyggjum með Sjálfstæðismönnum að það sé ekki gott að ríkið eigi of mikið í bankakerfinu. En aðalatriðið hvað þetta varðar, því að það er alveg hægt að fallast á það sjónarmið sem Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn á þeim tíma héldu fram, að sú leið sem yrði þá farin í staðinn myndi skila sömu niðurstöðu. Til þess var hún hönnuð. Hún var hönnuð til að skila sömu niðurstöðu eins og ef ríkið hefði tekið við bankanum strax. Leiðirnar til þess að tryggja að sú niðurstaða næðist voru allar til staðar.

Þess vegna eiga stjórnvöld ekki að leyfa aðilum eins og þessum vogunarsjóðum sem hér um ræðir að fara á svig við reglur, gera þeim heimilt, gera þeim kleift að breyta leikreglunum eftir á, ef svo má segja, því að þetta er auðvitað spurning um jafnræði. Þetta er líka spurning um það að heildarplanið gangi eftir, plan sem er hannað sem ein heild. Það þarf að klárast í heilu lagi. Þess vegna er ekki hægt að leyfa þeim sem hafa aðstöðu til á lokasprettinum að fara einhverja svindlleið. En ég þakka aftur góða umræðu.