148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:16]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, sem varðar hækkun starfslokaaldurs. Það er svo sem betur fer að við Íslendingar erum að verða að meðaltali eldri en við vorum fyrir ekki mörgum áratugum síðan. Við höldum starfsgetu okkar og þreki lengur fram á ævina en áður var þegar menn voru orðnir úr sér slitnir af erfiðisvinnu langt um aldur fram. Auk þess er þjóðin að eldast, við erum að eignast fleiri einstaklinga í aldursbilinu frá 67 ára og upp úr.

Fyrir nokkrum árum var lögum um almannatryggingar breytt. Settur var á valkvæður lífeyristökualdur frá 65 ára alveg upp í áttrætt. Menn gátu sem sagt valið um það hvenær þeir fóru á lífeyri innan þessa tímabils. En ekki er öllum fært að nýta sér þetta vegna þess að í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, kemur mjög skýrt fram að starfsmenn ríkisins og embættismenn eiga að láta af embætti eftir að þeir verða sjötugir, þ.e. næsta mánuð á eftir ef ég man rétt. Þessir ágætu menn og konur geta því ekki nýtt sér sveigjanleg starfslok.

Í þessum hópi ríkisstarfsmanna eru margir með áratugareynslu, búa yfir gríðarlegri þekkingu og mikilli reynslu. Í sjálfu sér er það mikil sóun og óréttlátt að skipa fólki sem er fullfrískt og hefur starfsgetu, hefur starfsvilja, að setjast í helgan stein. Nú tek ég skýrt fram að með þessu frumvarpi er ekki verið að skylda fólk til að vinna til 73 ára aldurs. Það er verið að gefa fólki sem vill það og getur það og hefur áhuga á því möguleika á því.

Þá ætla ég að koma aftur að því að í þessu fólki, í þessum mannauð, býr gríðarleg þekking. Það eru nokkur atriði sem ég get nefnt, nokkrar stéttir, þó að maður eigi kannski ekki að gera upp á milli. Ég get nefnt t.d. háskólakennara sem hafa langan starfsaldur að baki, gríðarlega reynslu, mikla þekkingu. Þeim er gert að fara heim eftir sjötugt. Sumir þessara ágætu manna og kvenna hafi verið ráðnir sem verktakar eftir sjötugt og halda áfram að kenna. Í hvað rekast þeir þá? 100 þús. kr. frítekjumarkið sem var sett fyrir áramót, þvert ofan í það sem við Miðflokksmenn lögðum til um að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Í hverju skrefi er lögð fyrir fólk gildra sem gerir því erfiðara um vik að sinna störfum eftir sjötugt ef það svo kýs. Ég man að í ágætri nefnd sem Pétur heitinn Blöndal stjórnaði í fyrstu og ég tók síðan við á sínum tíma voru þessi mál rædd. Svo mikið hef ég heyrt og orðið áskynja um að ég veit að innan vébanda Félags eldri borgara stendur mikill vilji til þess að fólki sé gert kleift að vinna lengur ef það kýs og getur. Einn forystumaður, ágæt kona sem ég heyrði í núna á fundi í haust, sagði: Við förum ekki fram yfir síðasta söludag þó að eitt ár bætist við ævina. Þetta er alveg hárrétt hjá henni. Það er sóun að nýta ekki starfskrafta fólks með alla þessa reynslu, alla þessa þekkingu, í mörgum tilfellum mjög vel menntað fólk sem býr yfir dýrmætri menntun.

Ég minntist á háskólakennara áðan. Ég gæti nefnt fleiri dæmi. Ég þekki dæmi um vísindamenn sem lengi hafa unnið að rannsóknum á Íslandi, ýmsum rannsóknum, sem hafa jafnvel verið í sjálfboðavinnu og unnið án þess að fá greitt af einskærum áhuga fyrir því að halda áfram rannsóknum sínum eins lengi og þeir telja að rannsóknin krefjist. Eigum við að leggja stein í götu þessa fólks? Nei, við eigum frekar að hvetja til þess að það nýti sína krafta eins og það kýs og vill.

Þetta frumvarp varðar eingöngu ríkisstarfsmenn en þeir eru bundnir af þessum starfsaldri að lögum. Nú er eftirlaunaaldur á Íslandi 67 ár og fólk á almennum vinnumarkaði getur út af fyrir sig hætt að vinna þegar þeim aldri er náð. Við höfum rekist á það að mjög oft er reiknað með því að fólk hætti líka á almenna markaðnum í kringum sjötugt eða sjötugt. Við höfum hins vegar séð dæmi um það og eitt kemur upp í hugann að margir iðnaðarmenn sem hafa skilað miklu dagsverki og eru farnir að lýjast verða náttúrlega afbragðssöluráðgjafar í byggingarvörum, menn með 40–50 ára reynslu að baki. Það er ekki hægt að fá betra fólk til að annast slíka vinnu að dómi þess sem hér stendur.

Í því skyni er þetta frumvarp lagt fram, að við hættum að sóa þeim kröftum og þeirri þekkingu sem aldraðir Íslendingar búa yfir og að við gerum þessum hópi kleift að starfa til 73 ára aldurs sem er ágætis fyrsta skref vegna þess að eftir að sá tími er liðinn sjáum við áhrifin af þessu. Nú segi ég aftur: Það er í sjálfu sér nauðsynlegt líka að tekið verði upp þetta svokallaða frítekjumark og fólki verði gert kleift að vinna sér inn tekjur án þess að verða fyrir skerðingum. Það er mjög margt sem vinnst með þessu. Við komum í veg fyrir félagslega einangrun fólks. Margir sem hætta að vinna koðna einfaldlega niður og missa hluta af lífsviljanum að því er virðist, verða jafnvel fyrir heilsuskerðingu af því einungis að setjast í helgan stein og hafa ekki þann sama tilgang eins og þeir höfðu áður.

Að okkar dómi sem stöndum að þessu máli, sem eru auk mín hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson og Birgir Þórarinsson, er það skref í rétta átt að gefa fólki kost á því að vinna sjálfu sér til heilla og þjóðfélaginu til gagns til 73 ára aldurs ef það kýs svo.

Ég vona að eftir þessa umræðu fái frumvarpið vandaða meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd, geri ég ráð fyrir, þannig að við getum notað þann auð sem býr í þessu góða fólki. Ég vonast eftir góðri umræðu um þetta mál og góðri afgreiðslu.