148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:25]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er fremur karllægt í salnum fyrir utan virðulegan forseta, en það er nú kannski ekki umræðuefni hér. Ég þakka hv. frummælanda Þorsteini Sæmundssyni fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Ég held að það sé tímabært. Það er ýmislegt sem hann sagði sem vert er að vekja athygli á og ég tek undir flest, ef ekki allt sem hv. frummælandi sagði í framsögu sinni.

Það er alveg ljóst að sem betur fer lifum við lengur. Lífsvon okkar er meiri en afa okkar og ömmu. Við erum við betri heilsu lengur en áður, starfsþrekið meira og svo framvegis. Einhver mesti fjársjóður sem við Íslendingar eigum er auðvitað mannauðurinn sjálfur. Þess vegna eigum við að nýta hann með sem bestum hætti og lofa fólki að nýta sinn eigin mannauð með þeim hætti sem það kýs.

Þar af leiðandi eru engin rök sem ég tek gild sem mæla með því að opinberir starfsmenn skuli endilega láta af störfum um sjötugt. Það sem vefst fyrir mér er af hverju miðað er við 73 ár í frumvarpinu. Það stakk mig eiginlega. Ég hefði skilið 75 ár, það er hálfur tugur. En 73 ár? Það hljóta að vera einhver ákveðin rök fyrir því hjá þeim sem standa að baki þessu frumvarpi. Ég veit að hv. þingmaður mun leiða mig í allan sannleika um það, nema ég hafi misskilið eitthvað og við getum sameinast um að hafa það 75 ár.