148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta. Líkt og ég sagði fyrr í dag veit ég að í brjósti hans býr jafnaðarmannshjarta sem kemur í ljós æ ofan í æ. Hvers vegna 73 ár? spyr hv. þingmaður. Ég get t.d. bent á að ef við skoðum upplýsingar um atvinnuþátttöku eins og hún er núna þá minnkar hún mjög eftir 73 ára aldur.

Þegar talan 73 ár kom fram við undirbúning þessa máls sagði ágætur maður sem ég hitti, sem er mikill sérfræðingur á þessu sviði: Já, 73 ár, það er ágætt fyrsta skref.

Ég man þá tíð þegar við hv. þingmaður sátum saman í þeirri nefnd sem ég nefndi áðan. Þá ræddu menn möguleikann á því að fólk gæti verið í vinnu alveg fram undir áttrætt.

Það eru hins vegar ýmis mál sem gæta þarf að, það þarf jú að vera ákveðin endurnýjun. Við erum náttúrlega með töluverðan stabba af vel menntuðu háskólafólki sem er atvinnulaust. Við þurfum að taka tillit til ýmislegs.

En ég sé þessa tölu, 73 ár, sem fyrsta skrefið af fleirum. Okkur fannst fullbratt að fara með þetta upp um hálfan áratug og tókum þess vegna þann pól í hæðina að gera þetta svona, láta reyna á þetta, sjá árangurinn, sjá eftirspurnina hjá þeim sem eiga þess kost og taka málið áfram þaðan.