minnst Sverris Hermannssonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar.
Frá því að Alþingi kom síðast saman til fundar fyrir liðna nefndaviku hafa tveir fyrrverandi alþingismenn andast, raunar nánir samherjar í þjóðmálum og flokksfélagar, þeir Sverrir Hermannsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.
Verður þeirra nú minnst.
Sverrir Hermannsson, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti neðri deildar Alþingis, lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 12. mars sl., 88 ára að aldri.
Sverrir Hermannsson var fæddur á Svalbarði í Ögurvík 26. febrúar 1930. Foreldrar hans voru Hermann Hermannsson, útvegsbóndi þar, og kona hans, Salóme Rannveig Gunnarsdóttir, húsmóðir. Um fermingaraldur fluttist hann til Ísafjarðar með foreldrum sínum.
Sverrir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1951 og kandídatsprófi í viðskiptafræði 1955. Þegar á skólaárum lét Sverrir til sín taka, var formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, og sat í stúdentaráði. Hann var og formaður Stúdentafélags Reykjavíkur eitt ár, 1957–1958.
Í hálfan annan áratug, eftir að Sverrir lauk námi og fram til þess að hann settist á Alþingi, starfaði hann að málum launþega, fyrst hjá vinnuveitendum, en síðar hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur í fjögur ár og loks sem framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra verslunarmanna í 15 ár. Um tveggja ára skeið, 1960–1962, var hann fulltrúi hjá blaðaútgáfunni Vísi. Samhliða þessum störfum hóf Sverrir útgerðarrekstur með bræðrum sínum og var stjórnarformaður útgerðarfélags þeirra, Ögurvíkur.
Það þótti snemma ljóst að hugur Sverris stefndi hingað til þings. Hann skipaði 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðismanna í Austurlandskjördæmi 1963 og aftur 1967 og sat nokkrum sinnum á þingi sem varaþingmaður. Fyrir kosningarnar 1971 vann hann 1. sætið og sat samfellt á þingi fyrir Austfirðinga til 1988. Eftir kosningarnar 1974 varð Sverrir annar tveggja framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins og síðar forstjóri, allt til þess að hann varð iðnaðarráðherra 1983. Tveimur árum síðar, haustið 1985, varð hann svo menntamálaráðherra og gegndi því embætti fram yfir kosningar 1987.
Sverrir var atorkusamur þingmaður og sinnti kjósendum sínum vel. Eftir haustkosningar 1979 var Sverrir kosinn forseti neðri deildar Alþingis og þótti svo lipur og réttsýnn á forsetastóli að hann sat hér í fjögur ár þótt í stjórnarandstöðu væri og drægi ekki af sér sem slíkur. Hann sat lengst í þingnefndum um atvinnumál, en síðast í allsherjarnefnd. Hann tók mjög virkan þátt í starfi Norðurlandaráðs á árunum 1975–1983.
Ári eftir að Sverrir hvarf úr ríkisstjórn var hann skipaður bankastjóri Landsbankans og lét þá af þingmennsku. Ár Sverris í Landsbankanum voru umbrotatími í efnahags- og atvinnulífi. Sjálfur gerðist hann mjög gagnrýninn á skipulag sjávarútvegs og er hann lét af störfum í bankanum eftir tíu ár stofnaði hann nýjan flokk, Frjálslynda flokkinn, sem boðaði breytingar á fiskveiðistefnunni. Hann varð fyrsti formaður flokksins og kosinn þingmaður Reykvíkinga 1999. Hann sat þá á þingi eitt kjörtímabil, fram til vorsins 2003. Þá þótti honum nóg komið og settist í helgan stein. Hann sat á Alþingi í 21 ár, á 27 þingum alls.
Í kringum Sverri Hermannsson ríkti sjaldnast lognmolla. Hann fór jafnan mikinn í orðum og athöfnum, hafði óvenjulega auðugt tungutak, var skýr og skorinorður í ræðustól, skapmikill og stór í sniðum. Í daglegum samskiptum hér á Alþingi var Sverrir hlýr í viðmóti, hreinn og beinn og tryggur sínum. Athafna Sverris sér víða stað en hann var ekki síst maður orðsins, málsnjall og orðheppinn, víðlesinn í íslenskum bókmenntum og hafði tilvitnanir úr þeim jafnan á hraðbergi. Hann var sögumaður góður, það svo að til hreinnar listar mátti teljast.
Sverrir Hermannsson verður þeim sem honum kynntust í opinberum störfum minnisstæður maður, hvort sem skoðanir fóru saman eða ekki. Hann bar sig jafnan vel, lét til sín heyra og hélt reisn sinni fram á síðustu daga.
Guðjón Arnar Kristjánsson, fyrrverandi alþingismaður og formaður Frjálslynda flokksins, lést aðfaranótt sl. laugardags á líknardeild Landspítalans eftir erfið veikindi, á 74. aldursári.
Guðjón Arnar Kristjánsson var fæddur á Ísafirði 5. júlí 1944. Foreldrar hans voru Kristján Sigmundur Guðjónsson smiður og kona hans, Jóhanna Jakobsdóttir húsmóðir.
Guðjón Arnar lauk stýrimannanámi á Ísafirði 1965 og fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík ári síðar. Hann hóf ungur sjómennsku, var háseti, matsveinn og vélstjóri frá 15 ára aldri en síðar stýrimaður og skipstjóri, allt fram til 1997.
Guðjón Arnar valdist ungur til forystu í félögum stéttar sinnar, var formaður Skipstjóra- og stýrimannfélagsins Bylgjunnar 1975–1984 og forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 1983–1999. Jafnframt átti hann sæti í ýmsum nefndum og ráðum, svo sem Verðlagsráði sjávarútvegsins og starfsgreinaráði sjávarútvegsins. Hann sat í stjórn Fiskveiðasjóðs, í skólanefnd Stýrimannaskólans í Reykjavík, í stjórn Fiskifélags Íslands og í stjórn Slysavarnaskóla sjómanna og var um tíma varafiskimálastjóri. Hann skrifaði ávallt mikið í blöð um málefni sjávarútvegs og sjómanna sérstaklega.
Jafnframt forystustörfum í samtökum sjómanna tók Guðjón Arnar þátt í stjórnmálum og sat á Alþingi sjö sinnum sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1991–1995. En vegna ágreinings um sjávarútvegsmál sagði hann skilið við flokk sinn, stofnaði með öðrum Frjálslynda flokkinn og var kosinn þingmaður hans 1999, fyrst fyrir Vestfjarðakjördæmi en síðar Norðvesturkjördæmi. Hann sat á Alþingi í tíu ár sem aðalmaður, fram til 2009, en samtals á 18 þingum ef allt er talið. Hann var formaður Frjálslynda flokksins 2003–2010. Hann átti lengst af þingferils síns sæti í sjávarútvegs- eða samgöngunefnd, en einnig var hann um tíma í fjárlaganefnd og tók þátt í störfum Vestnorræna ráðsins síðustu ár sín hér.
Guðjón Arnar sýndi snemma af sér dugnað og áræðni, var einn aflasælasti togaraskipstjóri landsins og þekktur fyrir hreysti og kappsemi um borð í skipum sínum. Hann hafði ánægju af félagsstörfum og var ungur valinn til forystu í samtökum sjómanna. Hann stóð vörð um réttindi þeirra á talsverðum breytingatímum, m.a. við upptöku kvótakerfis. Á það kerfi var hann gagnrýninn og það leiddi hann öðru fremur til virkra stjórnmálastarfa. Það munaði um Guðjón Arnar hér í þinginu. Hann var fastur fyrir, sérlega talnaglöggur og setti sig vel inn í mál. En togaraskipstjórinn reyndist ljúfur í samskiptum, glaðlyndur og fús til sátta og því einstaklega þægilegur að vinna með. Hann var heilsteyptur maður og drengskaparmaður og lagði jafnan góðum málum lið.
Ég bið þingheim að minnast Sverris Hermannssonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]