fækkun rúma fyrir vímuefna- og áfengissjúklinga.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir samtalið. Hún spyr í sinni fyrirspurn hvort viðeigandi sé að eiga í samtali. Það er okkar verkefni að vera í því og þess vegna spyr hv. þingmaður mig væntanlega vegna þess hversu viðeigandi það er að við ræðum málin á vettvangi þingsins.
Það mikilvægasta af öllu sem við erum að gera á vettvangi framkvæmdarvaldsins snýst um að koma geðheilbrigðisstefnunni til fullrar framkvæmdar. Áfengis- og vímuefnavandi er geðheilbrigðisvandamál. Við þurfum að beina sjónum okkar enn meira að forvörnum en við höfum gert. Við þurfum að horfast í augu við breytingar sem eru að verða á sýn samfélagsins, við þurfum að geta boðið upp á meðferðarúrræði sem virkar í nærumhverfi. Það eru auknar áherslur á slíkar lausnir í áfengis- og vímuvörnum víðs vegar, þ.e. að fólk sem glímir við slíkan vanda lifir ekki í tómarúmi heldur á þetta fólk fjölskyldur og umhverfi. Vandinn er fjölþættur og hefur líka áhrif á nærumhverfið.
Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að fleiri slæmar upplifanir sem barn lendir í í æsku hafi síðan áhrif á að það þrói með sér bæði heilbrigðis- og félagsvanda síðar á ævinni. Þetta er orðið viðfangsefni bæði heilsugæslunnar, þeirra sem vinna með forvarnir en ekki síst þeirra sem vinna með geðheilbrigðismál á öllum stöðum, bæði á spítölunum og í heilsugæslunni.
Hv. þingmaður spyr mig hvað ég sé að gera í þessu. Þetta mál verður ekki leyst með framlagi til eins tiltekins aðila. Því miður. Þá væri það einfalt mál. Við þurfum að horfa til þess að þetta er flókið viðfangsefni, flókið fyrir samfélag (Forseti hringir.) eins og okkar að takast á við og við eigum að hafa kjark í að skoða þetta í öllum lögum heilbrigðiskerfisins.