148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

fækkun rúma fyrir vímuefna- og áfengissjúklinga.

[15:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður er orðinn leiður á þingstörfunum (IngS: Það voru ekki mín orð.) en það var ekki mín meining að vera hér með útúrsnúninga, alls ekki, heldur langar mig að reyna að varpa ljósi á hversu flókið viðfangsefnið er. Það varðar ekki bara einn aðila á þessum vettvangi.

Þá vil ég líka nefna það að þær breytingar sem ég nefndi í mínu fyrra svari hafa áhrif á áfengis- og vímuefnameðferð í víðum skilningi,. Til að mynda er sífellt lögð meiri áherslu á göngudeildarþjónustu heldur en innlögn og það er eitthvað sem við sjáum að virkar vel fyrir marga. Þess vegna þurfum við að horfa til þess að leiðirnar sem voru kannski meira notaðar hér áður fyrr henta ekki öllum, það er ekki ein stærð sem hentar öllum. Það þarf að fara í víðtæka skoðun á því hvað hentar best og auðvitað þarf að fjármagna það og það þurfum við að gera í fjárlögum hvers árs, það er vettvangurinn sem við (Forseti hringir.) notum til að fjármagna einstök úrræði. Ég vænti þess að við munum hafa það til umræðu þegar það verður rætt síðar á þessu ári.