smávægileg brot á sakaskrá.
Virðulegi forseti. Á dögunum sendi ég skriflega fyrirspurn til þriggja ráðherra til eftirfylgni við skýrslu sem var skrifuð af starfshópi og dreift á Alþingi á 145. löggjafarþingi, um breytingar í vímuefnamálum. Þar er ein tillagan sú að smávægileg fíkniefnabrot fari ekki á sakaskrá. Það getur þvælst mikið fyrir fólki sem gerist sekt um smávægileg fíkniefnabrot að það fari á sakaskrá. Það þvælist fyrir fólki í vinnu og í lífinu og þetta þarf að afnema.
Auðvitað komst starfshópurinn að sömu niðurstöðu og ég held flestir, eða svo gott sem allir, sem skoða þetta mál. Ég sendi fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um hvort undirbúningur að reglubreytingu hefði þá hafist, á þá leið að smávægileg fíkniefnalagabrot færu ekki á sakaskrá. Hæstv. ráðherra svaraði því að samkvæmt lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skuli ríkissaksóknari halda sakaskrá og ákveða hvað í henni sé þannig að í raun og veru komi þetta dómsmálaráðherra ekkert við, heldur ríkissaksóknara.
Fyrirspurnir þingmanna til framkvæmdarvaldsins fara í gegnum ráðherra sem hafði sambandi við ríkissaksóknara til að spyrja hvort viðkomandi hefði fengið þessa skýrslu frá heilbrigðisráðherra. Svo var ekki þannig að hæstv. dómsmálaráðherra áframsendi skýrsluna til ríkissaksóknara. Það er gott og blessað en það sem mér finnst vanta í þetta svar, og kemur mér á óvart að sé ekki að finna í skýrslunni, er skoðun hæstv. dómsmálaráðherra.
Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra sjálfan með hliðsjón af því að hann er æðsti yfirmaður þessa málasviðs: Hver er afstaða dómsmálaráðherra til þess hvort smávægileg fíkniefnalagabrot eigi að fara á sakaskrá?
Í öðru lagi: Er dómsmálaráðherrann ekki reiðubúinn að beita sér á neinn hátt fyrir því að þessi reglubreyting eigi sér stað?