148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

smávægileg brot á sakaskrá.

[15:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, það var langur og örlítið flókinn aðdragandi að þessari fyrirspurn en allt satt og rétt sem þar kemur fram. Þessi fyrirspurn lýtur að skýrslu sem heilbrigðisráðuneytið hafði forgöngu um að gera og hefði kannski verið eðlilegt að hún hefði verið send dómsmálaráðuneytinu formlega, sem mér skilst að hafi nú ekki verið gert, að minnsta kosti í því augnamiði að koma þessum upplýsingum, skýrsluvinnunni og niðurstöðum hennar á framfæri við saksóknara. Það kemur fram í svari til hv. þingmanns frá mér í framhaldi af þessu að reglurnar eru þannig að það er ríkissaksóknari sjálfur sem setur reglur um upplýsingar á sakaskrá og allt er lýtur að sakaskrá.

Ég vil samt nefna í þessu sambandi að það er kannski umhugsunarvert fyrir löggjafann — ríkissaksóknari á vissulega að vera sjálfstæður í sínum störfum þegar kemur að saksókn, en það er ekki um það sem ræðir hér heldur er þetta um sakaskrá — hvort margt annað ætti kannski frekar heima í reglugerðartexta þegar kemur að atriðum er lúta að sakaskrá, m.a. það hvaða brot það eru sem fara inn á sakaskrá.

Mín afstaða er reyndar sú að öll brot eigi heima á sakaskrá. Smávægileg brot, nefnir hv. þingmaður. Það kemur þá bara fram á sakaskránni að þau eru smávægileg. Það sama á við um hvers kyns brot gegn umferðarlögum og því um líku. Svo að ég svari spurningunni frá mínum bæjardyrum séð þá tel ég nú að brot, ef þau eru á annað borð sönnuð og dæmd, eigi heima á sakaskránni.

Síðan er kannski annað mál sem við höfum stundum rætt hérna og það er hvaða upplýsingar eru opinberar úr sakaskrá.