148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir margt sem hér hefur komið fram. Auðvitað eigum við að standa við fresti sem settir eru í lögum og gott hefði verið að fá þessa fjármálaáætlun innan tilskilins frests. Ég segi þó fyrir mína parta að þeir þrír dagar sem framlagningin frestast skilja ekki á milli feigs og ófeigs hvað mig varðar. Ég er ósammála hv. þm. Þorsteini Víglundssyni sem talar eins og það sé alls ekki verið að vinna í fjármálaáætlun, eins og hann orðaði það hér, í ljósi þess að það þarf þrjá aukadaga. Ég reyni að vera milt stjórnvald, svo ég líti nú svo stórt á mig, og ekki láta eins og fólk sé ekki að gera neitt þó að það þurfi þriggja daga frest.

Hér kom fram að í fyrra kom fjármálaáætlunin fram 31. mars. Ég tek undir með þeim sem segja að vel hefði mátt taka lengri tíma í hana og vinna hana betur. Ég kom reyndar oft inn á það í þessum ræðustól í fyrra að betra hefði verið að taka lengri tíma í þá áætlun en að (Forseti hringir.) leggja hana fram innan frestsins. Árið 2016 var hún svo lögð fram 8. apríl. Við erum að vinna með þessu nýju lög, máta okkur inn í þau. Ég ætla í það minnsta að reyna að horfa sanngjörnum augum á þetta.