148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Segjum sem svo að þetta náist og þau nái að reima skóna og hífa upp um sig buxurnar og allt svoleiðis og nái að skila fjármálaáætluninni á réttum tíma. Þá er starfsáætlunin samt farin í ruslið. Því vil ég hvetja forseta til þess að upplýsa okkur þingmenn um hvernig starfsáætlunin breytist með tilliti til þess, því að væntanlega er búið að gera ráð fyrir því að í páskafríinu væri umsagnartíminn fyrir fjármálaáætlunina að líða. Nefndin, fjárlaganefnd, gæti þá tekið við fjármálaáætluninni strax eftir páska til að fara yfir umsagnirnar. En núna teygist það alveg jafnvel fram undir maí að klára umsagnartíma og þá erum við að fara að detta í sveitarstjórnarfríið, sem er enn eitt fríið sem er hérna á þingi.

Hvaða tíma höfum við þá til að afgreiða málið og á hvern hátt erum við að gera það faglega úr því sem nú er komið?