148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega talað um að um sé að ræða sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Við munum efla Alþingi, minni hlutinn á þingi, við höfum ýmsar leiðir til þess. Það væri gott ef forseti Alþingis stæði með minni hlutanum, stæði með Alþingi, þegar kemur að því að fá mál inn á réttum tíma. Ef þau koma ekki á réttum tíma, ég tala nú ekki um ef verið er að brjóta lög, með því að frumvörp komi ekki á réttum tíma, að vísa því þá skýrt til ríkisstjórnarinnar að við sættum okkur ekki við það; forseti Alþingis getur gert það ef hann er forseti alls þingsins.

Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnið með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“

Því er endalaust frestað að veita okkur upplýsingar á grundvelli réttar okkar þingmanna til að kalla eftir skriflegum upplýsingum frá ráðherra. Því er ítrekað frestað og því er borið við ráðuneytið geti ekki sinnt því. Þá þarf bara að setja meiri pening í það eða passa að peningunum sé vel varið. Við getum til dæmis verið með stjórnsýsluúttekt frá (Forseti hringir.) eftirlitsstofnun Alþingis, Ríkisendurskoðun, á því hvernig verið er að sinna þessum málum innan stjórnkerfisins. (Forseti hringir.) Við getum gert annað hér, við getum hafnað því að samþykkja mál. Það þarf bara 1/3 í þinginu til að hafna því að fá mál hingað inn í þingið (Forseti hringir.) með undantekningum, við getum bara hafnað því.

Forseti þarf að fara að sinna okkur, annars þurfum við bara að sinna þessu sjálf.