148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það vekur óneitanlega athygli að enginn þingmaður úr flokki hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sér ástæðu til þess að koma hingað upp og bera í bætifláka fyrir boðað lögbrot ráðherra.

Maður veltir fyrir sér hvort það sé orðið þeim svo eðlislægt að þurfa að þola að ráðherrar brjóti lög, að það taki því ekki að koma hingað upp. Það er eingöngu sérlegur sendifulltrúi ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem sér ástæðu til að koma hingað upp og reyna að verja það boðaða lögbrot sem við nú höfum orðið vitni að.

Það er frekar vandræðalegt að standa hér og velta fyrir sér hvort ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli ítrekað að gerast sekir um lögbrot.