frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.
Forseti hefur ekki veitt því athygli að fleiri vilji ræða fundarstjórn hans á þessu stigi og vill þar af leiðandi bregðast við. Ég hef beðið þess að þingmenn segðu hug sinn allan um þetta mál áður en ég blandaði mér í þær umræður.
Forseti hefur ekki hugsað sér að verða fréttaritari ríkisstjórnar í sínu hlutverki. Það má velta því fyrir sér hvort það sé liður í að auka virðingu Alþingis að láta að slíku liggja. Forseti hefur þegar verið í samskiptum við Stjórnarráðið og óskað eftir því að fá upplýsingar um hvenær ríkisfjármálaáætlun kæmi fram og hafði af því áhyggjur að hún myndi ekki nást fram á tilskildum tíma eftir því sem á leið; fékk það endanlega staðfest á dögunum og óskaði þá eftir því að það yrði bréfað til þingsins, hvað og var gert og tekið fyrir á fundum formanna þingflokka og í forsætisnefnd í morgun.
Þar fóru fram ágætisumræður um þessi mál og niðurstaða þeirra var meðal annars sú að forseti mun eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra, koma á framfæri við hann óánægju sem hér hefur komið fram, og ágætlega í þessum umræðum, um að þessi tímafrestur skuli ekki nást, sem og eiga við hann erindi um óskir þingflokksformanna um kynningu á áætluninni fyrir fram áður en henni verður dreift eða hún gerð opinber. Allt eru þetta sjálfsagðir hlutir.
Hér skeikar, eftir atvikum, einum virkum degi eða þremur dögum frá því að þau tímamörk séu virt sem lög gera ráð fyrir. Hv. þingmenn hafa ítrekað talað um lögbrot í því sambandi. Forseti ætlar ekki að gera þau orð að sínum, þó að lögin hljóði eins og þau gera, og verður því miður að viðurkenna að þegar hefur skapast fordæmi fyrir því að þessir tímafrestir séu ekki að fullu virtir. Þannig var það að mjög sams konar bréf barst Alþingi 2016 þar sem boðað var að ríkisfjármálaáætlun kæmi ekki fram fyrr en 8. apríl í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat.
Það er ekki til þess nefnt að réttlæta einn vondan atburð með öðrum verri. Það er mjög bagalegt að þessir frestir skuli ekki standast út frá skipulagningu þingstarfa. Það var þvert á móti ásetningur, eins og hér hefur komið fram, að ríkisfjármálaáætlun kæmi frekar fyrr en síðar þannig að meiri tími skapaðist til að vinna að henni. Var sá ásetningur staðfestur í starfsáætlun þessa þings eins og hún var fyrst birt í haust og síðan endurútgefin um áramótin og lýsir þeim vilja þingsins að hafa meiri tíma en minni til að vinna að ríkisfjármálaáætlun í ljósi reynslunnar undangengin tvö vor.
Engu að síður hefur þetta nú farið svo, í annað sinn á skömmum tíma, að þessi tímamörk virðast ekki ætla að nást. Það er sjálfsagt mál að eiga um það orð við hæstv. fjármálaráðherra hvort einhver leið sé til að ná þessu engu að síður þótt þetta séu greinilega áform ráðuneytisins eins og þau standa núna.
Þetta er það sem forseti hefur um þetta mál að segja.