útflutningsskylda í landbúnaði.
Frú forseti. Ég spyr hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að útflutningsskylda svokölluð, eða svipuð úrræði í landbúnaði, varðandi útflutning á lambakjöti, verði heimiluð að nýju. Það er ekki að ástæðulausu, þessi umræða kom mjög markvisst upp og var mikill þungi í henni af hálfu forystumanna og talsmanna bænda á síðastliðnu ári þegar upp kom ákveðinn vandi í sauðfjárrækt.
Fyrst var vandinn talinn vegna mikillar birgðastöðu sem síðan kom í ljós að var ekki. Þegar upp er staðið og horft til baka er ein helsta ástæðan fyrir erfiðleikum í sauðfjárrækt, að mínu mati, íslenska krónan, sterk staða hennar. En við þurfum líka, í samvinnu við bændur, neytendur og aðra í samfélaginu, að byggja upp þannig umhverfi að bændur geti orðið sjálfbjarga þegar kemur að því að rækta okkar stórkostlegu sauðkind. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar.
Ég las ræðu hæstv. ráðherra á búnaðarþingi. Margt áhugavert kom fram þar. Ég hef á öðrum vettvangi hælt ráðherra fyrir þá framsýni sem birtist í þeirri ræðu þar sem tekin voru inn sjónarmið bænda, ekki spurning, skýrt og mikilvægt. Það er mikilvægt að þau skilaboð komi frá landbúnaðarráðherra að styðja beri við bændur, styrkja þá til að byggja upp framleiðslu sem sinnir markaðnum og kemur til móts við þarfir neytenda. Ekki til þess að greiða niður útflutning á lambakjöti eins og verið hefur í gegnum tíðina og krafa var uppi um á síðastliðnu hausti því að það er einfaldlega gert með þeim hætti að verið er að greiða niður útflutning og halda uppi verði hingað til innlendra neytenda.
Vel að merkja var útflutningsskylda keypt á sínum tíma, fyrir ríflega tíu árum, af Bændasamtökunum í búvörusamningunum upp á um hálfan milljarð kr. að núvirði. Þá gerðu menn sér grein fyrir að það var ekki heppileg leið, var vissulega á sínum tíma, á fyrri árum, hugsanlega eitthvað sem hentaði samfélaginu en gerir ekki á Íslandi nútímans.
Við þurfum að fara aðrar leiðir til að styrkja bændur. Við eigum öll að tala þannig að við viljum gera það og samtvinna þessa hagsmuni. En það þarf líka að vera skýrt að við ætlum ekki að fara þessar gömlu leiðir.
Ég spyr því hæstv. ráðherra: Stendur hann við þau orð sem hann sagði á búnaðarþingi að hann hefði efasemdir um útflutningsskyldu, að það eigi að koma henni á að nýju? Ætlar hann að fara aðrar leiðir? Ætlar hann að verða við því að koma útflutningsskyldu á að nýju og fara þar með gegn eindregnum tilmælum Samkeppniseftirlitsins og ýmissa annarra, m.a. talsmanna neytenda? Það skiptir máli að við fáum skýr svör af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu máli því að ég er sannfærð um að við getum (Forseti hringir.) eflt landbúnaðinn með öðrum hætti en aðgerðum sem á endanum bitna á neytendum. Það setur ekki jákvætt yfirbragð á landbúnaðinn sem á svo sannarlega mörg og mikil tækifæri inni.