148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

útflutningsskylda í landbúnaði.

194. mál
[16:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Staðan í sauðfjárræktinni er með þeim hætti að full þörf er á að gefa því gott rými að ræða þau viðfangsefni sem þar er við að glíma.

Það er alveg ljóst að gerbreyttar aðstæður eru í sauðfjárrækt núna frá því fyrir tiltölulega skömmum tíma. Þetta er gerbreyttur markaður. Hvort tveggja liggur fyrir, sá samningur um innflutning á kjöti í kvótum og útflutningur sömuleiðis að einhverju leyti. Það eru erfiðleikar á mörkuðum erlendis, innan lands sömuleiðis. Svo erum við að glíma við sterkara gengi. Þó ekki væri nema fyrir þessa stöðu hljóta menn að sjá að það er engin ein patentlausn, ein algild lausn, í boði. Þetta er margþætt vandamál og ber að nálgast það með þeim hætti.

Við þekkjum það úr umræðunni um fjáraukalögin í desember síðastliðnum með hvaða hætti menn mátu stöðuna. Þar skapaðist mjög rík og breið samstaða um að koma til móts við skammtímavanda sauðfjárræktarinnar með fjáraukalagatillögu upp á 500 milljónir til sauðfjárræktarinnar beint, 65 milljónir eru ætlaðar í úttekt á afurðastöðvakerfinu og 50 milljónir til verkefna á ýmsum sviðum, kolefnisjöfnun, eflingar nýsköpunar, vöruþróunar og jafnframt að styrkja útflutning. Með þeim hætti vildi Alþingi bregðast við skammtímavanda í desember, en lengri tíma lausnin bíður. Við erum að vinna að henni.

Hér er spurt hvort ég standi við þau orð sem ég hafði í þessari margumræddu ræðu á búnaðarþingi Íslands varðandi útflutningsskylduna og ég svara því já. Ég hef verulegar efasemdir um að útflutningsskyldan sem slík leysi vandamál sauðfjárræktarinnar til frambúðar. Ég held að enginn sé að tala um það. Verst af öllu held ég að áhrifin af því yrðu á neytendur. Ég tel að það sem fyrst af öllu þurfi með einhverjum hætti að reyna að byggja upp sé meira traust, meira samband á milli neytenda og bænda eða framleiðenda í landinu og tel mig á góðu róli þar, eins og sagt er, þegar sú áhersla er kynnt. Ég fæ víðast hvar góð viðbrögð við því.

Ég tel að grundvallaratriði varðandi sauðfjárræktina sem þarf að ræða þegar við ræðum hvort eigi að taka upp útflutningsskyldu eða ekki, stóru spurningarnar sem þar er um að ræða, sé hvernig eigi að styrkja tekjugrundvöll greinarinnar, ná jafnvægi í framleiðslunni og þannig styrkja sauðfjárræktina og gera hana að stöðugri atvinnugrein. Ég held að þegar við höfum svör við þessum spurningum sé staðan einfaldlega sú að ekki þurfi að kvíða því að þá geti sauðfjárræktin verið sjálfstæð atvinnugrein og samkeppnishæf sem allir vilja horfa til og fullur vilji hjá stjórnvöldum að vinna þannig með greinina að búa svo um hnútana að vel geti árað í þeirri grein. Það er flókið. Það þarf að taka á mörgum þáttum.

Það eru úrræði innan núgildandi búvörusamninga til að gera ráðstafanir með tilfærslum ef einhvers konar áherslubreytingar þarf í fjárstuðningi. Ég hef haldið því fram að það sé gerlegt að ýta undir markaðsstarf á erlendum mörkuðum, fara með einhverjum sameiginlegum hætti í það, bæði að ræða við sláturleyfishafa og bændur um það. Horfa má til þess að reyna í samstarfi við bændur að aftengja framleiðsluhvata sem eru í núverandi búvörusamningum. Það eru ýmis atriði sem snúa að þessum atvinnurekstri sem ég tel að við getum rætt og erum raunar að undirbúa viðræður um, ásamt því að ég hef hitt forystu sauðfjárbænda núna allnokkrum sinnum, en skal viðurkenna að þar hafa menn horft mjög til þess að stutta svarið sé það að fara í að setja lög sem skylda fyrirtæki til útflutnings.

Ég hef hingað til ekki fallist á þær röksemdir sem færðar hafa verið fram til þess og hyggst beita mér með öðrum hætti til að reyna að vinna á þeim (Forseti hringir.) vanda sem þarna er við að glíma.