148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

útflutningsskylda í landbúnaði.

194. mál
[16:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir það sem sagt hefur verið hér í þessum stól fram að þessu. Ég get tekið undir þá gagnrýni sem kom fram fyrr í dag, mér fannst ræða ráðherra á búnaðarþingi ekki neitt sérstaklega afmarkandi eða stefnumarkandi. Ég saknaði þess dálítið að sjá hvert ríkisstjórnin er að fara í ræðum sem þessum. Það skýrist kannski af því að sú ályktun sem kom fram á landsfundi Sjálfstæðismanna um liðna helgi er svo sem ekki mjög skýr heldur þegar kemur að landbúnaðarmálum.

Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt er hann hér búinn að segja að það sé ekki á döfinni og hann sé andvígur því að leggja á útflutningsskyldu. Því langar mig að spyrja ráðherrann: Komi upp sú staða að hér sé offramboð af lambakjöti, offramboð af framleiðslu bænda, finnst honum þá koma til greina að leggja á útflutningsskyldu? Og hugsanlega þá í framhaldinu gera það með þeim hætti að hún detti úr sambandi, fari af, verði skortur (Forseti hringir.) á innanlandsmarkaði?