útflutningsskylda í landbúnaði.
Frú forseti. Aðeins út af síðustu athugasemd: Það skiptir einmitt máli að við förum í gagngera endurskoðun á búvörusamningunum. Við þurfum að leita allra leiða til að ná jafnvægi í framleiðslunni. Við verðum að horfast í augu við hvernig markaðurinn er og hagar sér í dag. Við eigum að einbeita okkur að innanlandsmarkaði, ná tökum á honum. Innanlandsmarkaður er engin smásmíði, og fjölmargir erlendir ferðamenn koma til landsins. Reynum að ná betri fótfestu þar því að varan er stórkostleg og alltaf í mikilli jákvæðri þróun.
Ég tel mikilvægt fyrir landbúnaðarráðuneytið og líka fyrir landbúnaðinn í heild að auka upplýsingaflæðið, auka gegnsæið. Auka hagtölugerð. Það er gríðarlega mikilvægt að fá Hagstofuna inn í málið. Við unnum að því á síðastliðnu ári að fá betri hagtölugerð þannig að ríkið þyrfti ekki eingöngu að stóla á þær tölur sem koma af hálfu bænda.
Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er gríðarlega mikilvægt upp á uppbyggingu landbúnaðarins, þessarar merkilegu atvinnugreinar, menningarlegu atvinnugreinar, og mikilvægu atvinnugreinar upp á framtíðina, að ná ákveðnum samhljómi. Samhljómi á milli neytenda og bænda af því að hagsmunir þeirra fara saman. En við eigum að horfa á alla virðiskeðjuna, alveg frá bændum að diskinum, til neytandans.
Inni á milli eru líka smásöluaðilar. Við eigum líka að fá þá með okkur í málið því að þetta er sameiginlegt samfélagslegt verkefni. Það þýðir ekki að beita gamaldags aðferðum í þessu efni.
Ég er sannfærð um að við höfum tæki núna til að fara m.a. í að endurnýja búvörusamninginn, segja skýrt og skorinort: Já, við ætlum að halda áfram að styðja við sauðfjárræktina í landinu. Við ætlum að gera það í gegnum kolefnisjöfnunina, í gegnum svæðisbundna styrki. Það þarf að þora að segja að það eru ákveðin svæði á landinu sem eru betur til þess fallin að styrkja sauðfjárræktina, út frá umhverfisvernd, þar sem hæstv. umhverfisráðherra er hér í salnum, og út frá svo mörgum sjónarmiðum. Ég hef oft bent á að bæði Vestfirðir og norðaustursvæðið eru tilvalin til þess. (Forseti hringir.) Ef rétt er á málum haldið eru tækifærin gríðarleg. Að fá okkur öll hér saman á þinginu til að sameinast um aðgerðir sem styðja á endanum við það að við getum áfram boðið upp á öflugt og gott lambakjöt sem bæði Íslendingar og útlendingar vilja neyta og njóta.