148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

útflutningsskylda í landbúnaði.

194. mál
[16:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá litlu umræðu sem þó hefur orðið um þetta. En í tilefni orða hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar segi ég: Það er ekkert nýtt að offramboð sé af lambakjöti. Við höfum verið að framleiða meira en innanlandsmarkaður kallar eftir. Neyslan hefur dregist saman, úr 40 kílóum á mann niður í 17 kíló, frá 1990. Það eru ekki nýjar staðreyndir. Vandinn hefur verið sá að við höfum ekki getað komið þessu öllu í lóg. Ég hef sagt að sá vandi sem við er að glíma varðandi útflutning sé 2–3 þús. tonn. Ég horfi þannig á það verkefni að það geti ekki verið ofverk okkar. Við erum í sjávarútvegi að flytja út mörg hundruð þúsund tonn af afla sem við erum að draga úr sjó.

Einbeitum okkur að því að koma þessu í lag. Ég tel að fullar færur séu til þess. Þegar vitnað er til markverðrar ræðu ætla ég bara að nefna að það er margt annað í henni en um útflutningsskylduna sem ég veit að er umdeild. Matvælastefna, menntun, innkaupastefna, kvótar, tillögur varðandi hrátt kjöt — allt ný atriði sem mönnum dettur ekki einu sinni í hug að nefna hér, en væru þess virði að ræða. Takið undir þetta frekar en að gagnrýna eitthvert eitt atriði og slíta úr samhengi við allt annað.

Ég stend með sauðfjárræktinni í landinu, ætla mér að gera það, að vinna með þeirri atvinnugrein. Það eru full færi til að gera það. Ég bendi á að sú endurskoðun sem er í gangi á grundvelli stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar gengur út frá því að bændum verði gefið færi á að vinna úr sínum málum með öðrum hætti en gert er í núverandi búvörusamningum. Allir, í það minnsta innan sauðfjárræktarinnar, eru á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að endurskoða þá samninga; eru þeir þó ekki nema rétt rúmlega eins og hálfs árs gamlir. Hvað segir það um fyrri verk? Það er full þörf á að taka þá í gegn, endurskoða þá. Sú vinna er hafin undir forystu hv. þm. Haraldar Benediktssonar og Brynhildar Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna. (Forseti hringir.) Þar eru bændur og neytendur leiddir saman og ég hef enga trú á öðru en að það verði til góðs fyrir sauðfjárræktina og neytendur í þessu landi.