148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

um fundarstjórn.

[16:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég saknaði þess í svörum virðulegs forseta áðan að hann svaraði ekki spurningu minni um það hvaða áhrif þetta hefur á starfsáætlunina. Ef ráðuneytið ætlar að taka meiri tíma þýðir það að við þurfum að taka minni tíma í afgreiðslu fjármálaáætlunar eða þurfum við að endurskoða starfsáætlun? Ætlum við að hafa þingfundi í maí þegar enn eitt fríið var planað? Verðum við lengur í júní? Hvað þýðir það að fjármálaáætlun seinki frá 20. mars til 4. apríl? Það er ekki bara talað um einn til tvo daga. Samkvæmt starfsáætlun átti að ræða hana 20. mars. Það eru átta vinnudagar sem munar. Það riðlar öllu skipulaginu í starfsáætlun hvað umsagnarferli og nefndarvinnu varðar og hefur mikil áhrif á störf okkar í þinginu; hvernig hraðvinnu við þurfum að fara í í kjölfarið, sem enn og aftur er ekki ásættanlegt. (Forseti hringir.) Við höfum nýlega farið í gegnum slíka fjárlagaumræðu sem var ómöguleg. Ekki gera það líka við fjármálaáætlunina.