148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

um fundarstjórn.

[17:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Við viljum efla þingið. Ekki bara virðingu þess. Hún verður að vera á réttmætum forsendum. Við sjáum að virðing þingsins er að fara upp, m.a. vegna þess að við höfum verið að sinna eftirlitshlutverki okkar. Landsmenn fíla það þegar við sinnum eftirlitshlutverki okkar gagnvart stjórnvöldum. Við upplýsum hluti, höldum opna nefndarfundi. Það er klárt að við þurfum að halda áfram að gera nákvæmlega þetta og gera meira. Nota fleiri verkfæri sem við höfum.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur verið duglegur að kalla eftir upplýsingum, m.a. til að benda á að mikið af upplýsingum liggur ekki fyrir. Við getum haldið áfram með þetta, getum verið með stjórnsýsluúttekt sem Ríkisendurskoðun getur gert á því hvernig menn standa sig með þessa peninga sem við gefum þeim, stjórnvöldum, í að sinna upplýsingaskyldunni gagnvart þinginu. Það er ítrekað kvartað réttilega undan því að skýrslum sé ekki skilað, fyrirspurnum ekki svarað. Við eigum bara halda áfram þarna því að ég treysti ekki núverandi forseta til að standa með þinginu hvað þetta varðar fyrr en ég sé það. Hann er ekki að gera það núna. (Forseti hringir.)

Við getum gert þetta. Og ég er búinn að leggja til við minn þingflokk og byrjaður að leggja það fram að við munum skoða okkar hluti, hvernig það lítur út ef veðrið er gott hérna í þinginu og hvernig það lítur út ef veðrið er slæmt. Við ætlum bara að byrja að safna atriðum (Forseti hringir.) sem við getum gert, safna þeim, flokka þau niður, þannig að við beitum okkar valdheimildum til að ríkisstjórnin geti ekki vaðið yfir okkur.