148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

um fundarstjórn.

[17:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er boðinn og búinn til að hugsa í lausnum. Ég lagði til með fjárlögin síðast að hægt væri að koma stafrænni útgáfu af fjárlögunum, þá núna fjármálaáætluninni, fyrr til þingsins því að prentun er ákveðið umstang og tekur tíma. Þá væri mögulega hægt að ná tímatakmörkunum vegna 1. apríl með því að dreifa stafrænu eintaki út um allt en leyfa prenteintakinu að detta yfir á 4. apríl. Það væri þá alla vega búið að dreifa málinu á réttum tíma. Þannig að af þessu „að hugsa í lausnum“-dóti er það kannski hugmynd sem ég skýt að ríkisstjórninni og fjármálaráðuneytinu.

En óháð því lendum við samt í vandræðum með starfsáætlunina. Það vandamál er óleyst. Þetta riðlar öllu sem varðar nefndarvinnuna í kjölfarið rosalega mikið. Það eru tvær vikur sem gert var ráð fyrir í páskafríi sem áttu að vera umsagnarvikurnar sem detta núna inn á venjulega þingdaga. (Forseti hringir.) Það á eftir að valda mjög miklum vandræðum í afgreiðslu þingsins á fjármálaáætlun því að það verður mjög lítill tími fyrir hana, aftur.