hnjask á atkvæðakössum.
Virðulegi forseti. Þetta var ekki útskýring á því hvaða hnjaski atkvæðakassarnir urðu nákvæmlega fyrir. Til þess að hjálpa ráðherra kannski get ég upplýst það að þegar ég var umboðsmaður á talningarstað datt botninn einfaldlega úr atkvæðakassanum þannig að seðlarnir runnu bara út á gólf. Sá atkvæðakassi var teipaður hringinn og aukainnsigli sett á hann. Ég var persónulega vitni að þessu. Mér finnst því undarlegt að það sé ekki hluti af þessum lista.
Í seinni alþingiskosningum gerðist það sama. Það var hins vegar áður en atkvæðaseðlarnir voru settir í kassa, þá datt botninn einfaldlega úr atkvæðakassanum og það þurfti að negla botninn á aftur í sömu göt og voru notuð áður og héldu ekki. Þetta var allt rækilega skjalfest en kemur af einhverjum orsökum ekki fram í svari ráðuneytis og ráðherra. Ég velti fyrir mér, af hverju? Hvernig stendur eiginlega á því?
Til viðbótar í fyrri skriflegu fyrirspurn minni spyr ég hversu margir atkvæðakassar voru notaðir í alþingiskosningum 2017, skipt eftir kjördæmum. Svarið er að ráðuneytið hafi ekki haldið skrá yfir fjölda atkvæðakassa. Nú velti ég fyrir mér, hver getur þá svarað þessari spurningu? Hvað eru margir atkvæðakassar í notkun? Hvern á ég að spyrja annan en dómsmálaráðherra? Er það ekki verkefni dómsmálaráðherra að leita eftir svörum til viðeigandi aðila sem halda utan um þessar tölur?