148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

framkvæmd og eftirfylgni barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

329. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Fyrir rétt rúmu ári var samþykkt á Alþingi beiðni um skýrslu frá hæstv. dómsmálaráðherra um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sú skýrsla hefur enn ekki borist Alþingi. Beiðnin var að frumkvæði Eyglóar Harðardóttur, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra. Flutningsmenn voru auk hennar aðrir þáverandi talsmenn barna meðal alþingismanna.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var fullgiltur á Íslandi í nóvember 1992 og lögfestur árið 2013. Frá þeim tíma hefur hann haft bein réttaráhrif hér á landi. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna er útbreiddasti mannréttindasáttmáli í heimi og kveður á um sérstök réttindi barna óháð réttindum fullorðinna. Þar má nefna réttinn til lífs, friðhelgi, fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis.

Í greinargerð með skýrslubeiðninni frá talsmönnum barna á Alþingi kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Barnasáttmálinn tryggir börnum rétt til að láta í ljós skoðanir sínar á öllum málum sem þau varða með einum eða öðrum hætti og að taka tillit til skoðana barna í samræmi við þroska þeirra og aldur. Sáttmálinn leggur einnig þær skyldur á samningsríki að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði félags-, mennta- og heilbrigðismála.“

Óskað var eftir því að fjallað yrði um eftirfarandi í skýrslunni frá hæstv. dómsmálaráðherra:

„1. Þau áhrif sem má leiða af lögfestingu barnasáttmálans á verkefni og þjónustu hins opinbera.

2. Hvernig staðið hefur verið að greiningu á áhrifum lagasetningar, stefnumótandi ákvarðana og framkvæmd á þjónustu við börn.

3. Hvort gögnum hafi verið safnað þar sem staða og aðstæður barna eru kortlagðar á kerfisbundinn hátt.

4. Hvort fyrir liggi skýr aðgerðaáætlun um málefni barna.

5. Hvort unnið hafi verið að markvissri fræðslu um barnasáttmálann hjá hinu opinbera, t.d. fyrir kennara, kjörna fulltrúa, börn og almenning.

6. Hvort fyrirhugað sé að setja á fót nefnd eða starfshóp um innleiðingu sáttmálans og áhrif hans.

7. Hvernig eftirliti með innleiðingu sáttmálans og mannréttindum barna er háttað.

8. Réttaráhrif samningsins frá því að hann var lögfestur.

9. Hvort til standi að samþykkja þriðju valfrjálsu bókunina við barnasáttmálann.

10. Hvernig brugðist hefur verið við athugasemdum sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðarinnar við innleiðingu barnasáttmálans frá 2012.“

Þetta eru allt saman stórar spurningar. Ég ætlast ekki til að hæstv. ráðherra geri nákvæma grein fyrir þeim á fimm mínútum en leyfi mér þó að spyrja: Hvernig hefur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verið hrundið í framkvæmd og hvernig hefur honum verið fylgt eftir?