148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

vinna við réttaröryggisáætlun.

338. mál
[17:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, þessar áætlanir sem nefndar hafa verið eru komnar nokkuð langt. Þess ber þó að geta að með tilkomu laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, breyttist að verulegu leyti hvernig ráðuneytunum ber almennt að haga stefnumótun fyrir málefnasvið. Ég vísa þar sérstaklega til 20. gr. laganna. Með hliðsjón af því var m.a. talið réttara í dómsmálaráðuneytinu að sú stefnumótunarvinna sem áður hafði farið fram undir formerkjum réttaröryggisáætlunar skyldi finna sér nýjan farveg í samræmi við 20. gr. laganna um opinber fjármál.

Upphaflegt markmið réttaröryggisáætlunar var að mynda ákveðna regnhlíf utan um stefnumótun á sviði löggæslu, ákæruvalds, dómstóla og fullnustu refsinga þannig að heildarsýn fengist yfir þessa málaflokka ásamt nauðsynlegri samræmingu. Vinna við löggæsluáætlun var komin nokkuð langt á veg en önnur vinna eitthvað skemur. Löggæsluáætlunin var komin lengra en aðrar áætlanir.

Í lögunum um opinber fjármál fólst, eins og ég hef nefnt, sú breyting að núna ber ráðuneytunum að haga stefnumótun á einstökum málasviðum með aðgreinanlegum hætti. Sú skipan sem höfð var á við gerð réttaröryggisáætlunar fellur þar af leiðandi ekki vel að fyrirmælum laga um opinber fjármál. Formlega hefur vinnu við réttaröryggisáætlunina verið hætt, en afrakstur hennar verður hins vegar nýttur við áframhaldandi stefnumótun í viðkomandi málaflokkum þannig að ákæruvalds-, dómstóla- og fullnustuáætlanir verða núna gerðar í samræmi við lög um opinber fjármál.

Undantekningin frá þessu fyrirkomulagi er vinna við löggæsluáætlun sem mun halda áfram í óbreyttri mynd enda er hún langt komin, eiginlega tilbúin. Auk þess að hafa verið sérstaklega samþykkt í ríkisstjórninni á hún einnig sérstaklega uppruna sinn í þinginu og ég stefni að því að leggja löggæsluáætlun fram á næsta haustþingi.