148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

vinna við réttaröryggisáætlun.

338. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta ákveðin tíðindi. Það var samdóma álit á sínum tíma að það væri mjög mikilvægt að móta réttaröryggisáætlun. Lög um opinber fjármál tóku síðan gildi 1. janúar 2016. Það var haldið áfram að vinna að þessum áætlunum eftir gildistöku laga um opinber fjármál og mjög mikið hefur verið unnið í löggæsluáætluninni, eins og við vitum, langt komið með hana og það á að halda henni áfram. Það er gott og það er fagnaðarefni, enda kominn tími til. Ákæruvaldið var komið langt með þá vinnu og hið sama á við um fullnustuáætlunina.

Þetta skiptir gríðarlega miklu máli því að allir helstu samstarfsaðilar, undirstofnanir og fleiri, voru kallaðir til þeirrar miklu vinnu sem býr að baki þessum áætlunum. Ég get ekki betur greint en að það eigi bara að leggja allri þessari vinnu, setja hana til hliðar fyrir utan löggæsluáætlunina. Mér finnst það miður því að það er búið að vinna gríðarlega mikið að þessu. Það var merkilegt starf sem fór af stað á sínum tíma, einmitt undir forystu þáverandi innanríkisráðherra, Ólafar Nordal, en ég verð að biðja hæstv. ráðherra að tala skýrt. Fyrir utan löggæsluáætlunina spyr ég: Hvað verður um ákæruvaldsáætlunina, dómsmálaáætlunina og fullnustuáætlunina? Á að skýla sér á bak við lög um opinber fjármál og segja: Nei, við getum ekki haldið áfram með þessar áætlanir? Skil ég það rétt?

Mér finnst þetta skipta mjög miklu máli. Loksins þegar komið er eitthvert heildarsamhengi í réttaröryggi sem tekur til dómsvaldsins, löggjafarvaldsins, ákæruvaldsins og fullnustuþáttanna er allt í einu bara sett til hliðar mjög mikilvæg og merkileg vinna sem hefur verið unnin þvert á stofnanir. Mikið samráð og mikil vinna hefur átt sér stað. Hvað ætla menn þá að gera? Mér finnst skipta máli að við tölum hér skýrt, ekki veitir af á þessum síðustu dögum að það verði talað skýrt á (Forseti hringir.) þessu sviði.