148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

samræmd próf og innritun í framhaldsskóla.

328. mál
[17:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólanum er að, með leyfi forseta, úr reglugerð:

„athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,

vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda,

veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,

veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild stendur í þeim námsgreinum og námsþáttum sem prófað er úr.“

Að auki kemur fram, með leyfi forseta:

„Niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt.“

Nú er önnur reglugerð sett sem stangast á við tilgang þessarar reglugerðar um framkvæmd samræmdra prófa sem kveður á um að það megi nota niðurstöður samræmdra prófa sem viðbótargögn við mat á því hvort nemandi fái skólavist í framhaldsskóla. Nú held ég að það sé gott að taka umræðuna aðeins út frá því sem við þekkjum sem tókum samræmd próf eins og þau voru áður, þar sem samræmdu prófin snerust um að komast í framhaldsskóla eða ekki. Þau gera það ekki lengur. En með því að setja reglugerð um að það megi nota samræmdu prófin sem viðbótargögn er búið að breyta þeim aftur í þessi svokölluðu áhættupróf, sem er það sem var verið að reyna að forðast með breytingunni yfir í að þau væru könnunarpróf en ekki inntökupróf eins og þau hafa verið.

Nú hefur ýmislegt breyst síðan ég lagði fram fyrirspurnina. Haldin voru samræmd próf sem fóru eins og þau fóru. Ég spyr ráðherra: Hyggst ráðherra fella úr gildi ákvæði í reglugerð nr. 1199/2016 sem kveður á um þessa breytingu á reglugerð varðandi innritun nemenda í framhaldsskóla, sem heimilar framhaldsskólum að nota niðurstöður samræmdra prófa sem viðbótargögn við innritun nemenda?

Í fjölmiðlum sagði skólameistari Verslunarskólans einmitt — eftir þeim upplýsingum sem ég fékk á síðasta kjörtímabili í allsherjar- og menntamálanefnd um þá reglugerð að það mætti nota niðurstöður samræmdra prófa sem viðbótargögn, sú reglugerð var gerð fyrir Verslunarskólann — að þau væru gagnslaus af því að Menntamálastofnun skilar ekki öllum niðurstöðunum á einu bretti til skólans heldur verður hver og einn nemandi að skila gögnunum. Þá skila ekki allir gögnunum og þá verður þetta gagnslaust sem viðmiðunartæki til þess að ákveða hvort nemandinn kemst inn í skólann eða ekki. Það lítur út fyrir að þessi aukareglugerð sé einfaldlega gagnslaus. Ætlar því ráðherra ekki að fella hana úr gildi?