148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

samræmd próf og innritun í framhaldsskóla.

328. mál
[18:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir skelegg svör við fyrirspurnum hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og spyr í framhaldinu hvort sömu aðferðum verði beitt varðandi þau samræmdu próf sem tekin voru haustið 2016 vegna þeirra barna sem eru að hefja nám í framhaldsskólum hér á landi næsta haust. Spurningin er borin fram vegna þess að í þeim meintu samræmdu prófum sem skyndilega voru lögð á í 9. bekk en ekki 10. bekk var allur gangur á því hvort börnin tóku eitt samræmt próf á dag eða tvö. Í sumum skólum þurftu börnin að koma sjálf með tölvur til að hægt væri að framkvæma einhvers konar rafrænt próf. Það virtist vera svolítið mikið (Forseti hringir.) eftir hentugleika hvernig þetta var framkvæmt. Maður veltir fyrir sér hvernig framhaldsskólarnir ætla að huga að þessum málum varðandi þau börn sem byrja í haust.