148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

samræmd próf og innritun í framhaldsskóla.

328. mál
[18:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Það er hægt að tala um þetta mál út frá framkvæmdinni sem fór eins og hún fór, innihaldinu sem hefur verið gagnrýnt í mörg ár og svo náttúrlega tilgangi þess að halda þessi próf. Í rauninni er ekki hægt að rífast um að tilgangur þeirra sé mjög mikilvægur. Samræmd próf hafa mjög góðan tilgang fyrir nemendur. En um leið og þau verða áhættupróf falla þau um sjálf sig. Þá hætta þau að gera það sem könnunarpróf ná, að vera ákveðið gæðaeftirlit gagnvart skólanum fyrir nemandann. Nemandinn á að leggja metnað í að taka könnunina á heiðarlegan og góðan hátt og reyna að klára hana vel, það er mælikvarði nemandans á þá menntun sem hann hefur fengið. Jú, hún er tvímælalaust háð ákveðnum takmörkunum sem próffræðin veit af. En það gerir ekkert lítið úr því tæki sem þetta á að vera fyrir nemandann. Þess vegna má þetta alls ekki vera þröskuldur fyrir framtíðina, eins og ég er ánægður með að verið sé að afturkalla þá reglugerð.

Núna ættum við að horfa aðeins til framtíðar varðandi þessi samræmdu könnunarpróf. Þetta eru ekki áhættupróf, ekki eins og það var. Við megum ekki nota söguna eins og við kunnum hana í samræmdu prófunum. Þetta virkar öðruvísi. Þetta er mjög verðmætt tæki fyrir nemanda. Þetta er í raun réttur nemanda til að fá gæðaeftirlit gagnvart skólakerfinu til að sýna fram á hver stóð sig ekki. Menntakerfið stóð sig ekki í þeirri skyldu sem það hafði til að mennta nemandann.

Það er líka áhugavert að nefna það að geta skólanna til að framkvæma rafræn próf virðist dálítið slæm (Forseti hringir.) en þó að það hafi farið eins og það fór hafa þeir samt sýnt mjög góð úrræði til að redda því. Þó mætti endilega gera betur fyrir skólana hvað það varðar til þess að þeir geti sinnt og boðið upp á rafræn próf.