148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Sama dag og við fjölluðum hér um vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra skrifaði hún undir reglugerð sem þrengir mjög túlkun á því hvaða umsækjendur um alþjóðlega vernd teljast í sérstaklega viðkvæmri stöðu og fá umsókn sína því tekna til efnismeðferðar. Í hinni nýju reglugerð segir að til að einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu þurfi að vera um að ræða mikil og alvarleg veikindi. Er nú gerð sú krafa að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og að meðferð við honum sé aðgengileg eingöngu hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Ég vek sérstaka athygli Alþingis á því að þetta reglugerðarákvæði á einnig við um börn, börn á flótta sem með þessari breytingu hæstv. dómsmálaráðherra teljast almennt ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu eins og ætla mætti, heldur þurfa að vera haldin skyndilegum og lífshættulegum sjúkdómi ofan á neyð sína til að fá umsókn sína um vernd metna af íslenskum stjórnvöldum.

Ég vil einnig vekja athygli þingheims á því að með tiltölulega nýlegum breytingum á útlendingalögum var áréttaður sérstaklega sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Ég held að engan hafi grunað þegar lögunum var breytt að ráðherra færi þá bara í það ein og eftir sínu margumrædda brjóstviti að breyta reglugerð til að skerða réttindi barna og annarra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu þannig að þetta undantekningarákvæði gilti eingöngu fyrir þau börn og aðra sem eru nánast við dauðans dyr og aðra ekki.

Með hinni nýju reglugerð gerir ráðherrann enn strangari kröfur til stjórnvalda um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd. Ég tel (Forseti hringir.) að það þurfi einstaka hæfileika til að sjá ekki hvílík mannvonska felst í slíkum reglum.