148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lögheimili og aðsetur.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, og hins vegar lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952. Þau eru með öðrum orðum orðin nokkuð gömul.

Á síðustu áratugum hefur samfélagið hér á landi tekið miklum breytingum. Í því samhengi má t.d. benda á að Ísland gerðist aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem kveðið er á um frjálsa fólksflutninga. Tölvu- og netvæðing hefur breytt miklu og þjóðin gekk í gegnum efnahagshrun sem varð til þess að margir fóru utan til að sækja sér atvinnu, í það minnsta tímabundið og fólk hefur haldið búsetu í öðrum löndum. Atvinnuþátttaka og menntun kvenna hefur aldrei verið meiri og aukin krafa er um jafnrétti og jafnræði. Óvígð sambúð er viðurkennt sambúðarform, samkynhneigðir hafa rétt til að ganga í hjúskap og við skilnað hjóna og sambúðarslit er orðið algengara að börn séu með jafna búsetu hjá foreldrum. Framangreind dæmi sýna að þjóðfélagsaðstæður hafa breyst svo mikið frá því að fyrrnefnd lög voru sett að brýn þörf er á breytingu á lögheimilislögum sem og lögum um tilkynningar aðsetursskipta.

Með bréfi, dagsettu 23. júní 2017, skipaði þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra starfshóp sem skyldi yfirfara gildandi lög um lögheimili og lög um tilkynningar aðsetursskipta. Þá lá fyrir þingsályktun frá 7. september 2016 þar sem Alþingi ályktaði að fela ráðherra að setja á fót starfshóp sem myndi undirbúa endurskoðun laga um lögheimili, nr. 21/1990, m.a. með það að markmiði að hjónum yrði gert kleift að eiga lögheimili hvoru á sínum staðnum, hvort heldur bæði hefðu bækistöð innan lands í mismunandi sveitarfélögum eða annað hefði bækistöð erlendis. Þekkt er að vinnuveitendur geri í einhverjum tilvikum kröfu um að viðkomandi starfsmaður flytji lögheimili sitt í það sveitarfélag eða til þess lands þar sem starfsemi fyrirtækisins fer fram.

Til viðbótar við áðurnefnda ályktun Alþingis hafði lengi staðið til að láta fara fram heildarendurskoðun á lögum um lögheimili og lögum um tilkynningu aðsetursskipta enda, eins og fram hefur komið, báðir lagabálkarnir komnir nokkuð til ára sinna. Frumvarpinu er ætlað að tryggja að löggjöf um lögheimili og aðsetur sé í takt við þarfir og samfélagshætti nútímans og sé skýr og auðskiljanleg.

Í frumvarpinu er gerð grein fyrir markmiðum lögheimilisskráningar, sem er nýmæli. Þannig er lagt til að markmið frumvarpsins sé að stuðla skuli að því að búsetu- og aðsetursskráning einstaklinga sé rétt og að réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála sem varðar skráningu lögheimilis og aðseturs verði tryggt.

Eins og í gildandi rétti er í frumvarpinu lagt upp með að áfram sé miðað við það að lögheimili sé þar sem föst búseta manns er. Jafnframt er kveðið á um að ekki sé heimilt að eiga lögheimili á Íslandi og erlendis á sama tíma. Miðað hefur verið við þessa reglu í dag, en hún ekki lögfest og er bætt úr því hér. Búsetuhugtakið er skilgreint eins og í gildandi lögum að því undanskildu að nú geta námsmenn, á meðan þeir eru í námi, haft búsetu eða aðsetur á öðrum stað en lögheimili þeirra er skráð. Það skilyrði er óbreytt í lögum að einungis er heimilt að skrá lögheimili í húsnæði sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá og hefur staðfang.

Heimildir til að skrá lögheimili sitt á öðrum stöðum eru þó rýmkaðar frá því sem nú gildir. Þannig er lagt til að heimilt verði að skrá lögheimili t.d. í starfsmannabústöðum og tímabundið á áfangaheimilum. Búseta fólks á þessum stöðum er raunveruleg og því eðlilegt að heimila lögheimilisskráningar þar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í þessu felst frávik frá meginreglunni um að lögheimili geti aðeins verið í skráðu íbúðarhúsnæði sem ber því að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Ákvæðið um fasta búsetu í gildandi lögum var sett með hliðsjón af norrænum lagaákvæðum um fasta búsetu.

Þar sem fyrir hendi eru undanþágur í frumvarpinu um aðsetur á öðrum stöðum en lögheimili þykir rétt að skylda umrædda einstaklinga til að skrá aðsetur sitt sérstaklega hjá Þjóðskrá Íslands. Með aðsetri er átt við tímabundna búsetu í húsnæði sem uppfyllir skilyrði 2. gr. frumvarpsins. Skilgreining búsetu í vafamálum er eins og í gildandi lögum.

Lagt er til að hjónum verði heimilað að skrá sig til lögheimilis hvoru á sínum staðnum og er um nýmæli að ræða. Sama gildir ekki um sambúðarfólk enda er um að ræða annars konar sambúðarform og skráðri sambúð verður ekki að öllu leyti jafnað við hjúskap. Skráning lögheimilis barna verður óbreytt en í framtíðinni verður mögulegt að skrá bæði lögheimili barns og aðsetur þess í þeim tilvikum sem búseta barns er til jafns hjá báðum foreldrum.

Til viðbótar má geta þess að í smíðum er frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á barnalögum sem mun taka á skiptri búsetu barna og er það væntanlegt á næsta ári, 2019.

Í frumvarpi þessu er veitt heimild til að dylja lögheimili einstaklings og heimilismanna hans í þjóðskrá ef það þykir nauðsynlegt og er um nýmæli að ræða. Gildistöku ákvæðis þess sem kveður á um dulið lögheimili er þó frestað til ársins 2020 í ljósi þess að unnið er að endurskoðun laga um þjóðskrá og almannaskráningu en nánari útfærsla verður á duldu lögheimili í því frumvarpi.

Skerpt hefur verið á reglum er varða skráningu íslenskra námsmanna hérlendis sem og erlendis og sama á við um þá sem þurfa að dveljast fjarri heimili sínu vegna veikinda.

Í frumvarpinu kemur fram sú skylda sérhvers sjálfráða einstaklings að skrá lögheimili sitt og aðsetur þar sem það á við og viðhalda skráningunni verði breytingar á högum manns. Þjóðskrá Íslands er miðlægur skráningaraðili og fer um skráningar samkvæmt lögum sem um stofnunina gilda. Það er nýmæli að ábyrgð er nú sett á þinglýsta eigendur húsnæðis að fylgjast með skráningum lögheimila í eignum þeirra og þeim veitt heimild til að hlutast til um breytingar á skráningunni sé hún röng.

Reglur um flutning til Íslands og dvöl eru í meginatriðum samhljóða ákvæðum gildandi laga. Rétt er þó að árétta að hver sá sem flytur til landsins og vill skrá lögheimili sitt getur ekki skráð lögheimili sitt rafrænt heldur verður hann að koma í eigin persónu á starfsstöð Þjóðskrár Íslands og framvísa persónuskilríkjum. Á þetta við um Íslendinga jafnt sem erlenda ríkisborgara. Samkvæmt gildandi lögum um aðsetursskipti var einnig hægt að skrá lögheimili sitt við flutning til landsins hjá sveitarstjórnum og lögreglu. Er sú heimild felld úr gildi með frumvarpi þessu.

Þjóðskrá Íslands er veitt heimild til eftirlits með skráningum og til þess að leita eftir aðstoð lögreglu og Útlendingastofnunar í þeim tilgangi. Þá er Þjóðskrá Íslands veitt heimild til sjálfstæðrar rannsóknar á lögheimilisskráningum og upplýsingaöflunar hjá öðrum stofnunum, sveitarfélögum og lögaðilum sem geta upplýst um búsetu einstaklinga. Er þá átt við banka, greiðslukortafyrirtæki, póst, fjarskiptafyrirtæki o.s.frv. Viðkomandi stofnunum, sveitarfélögum og lögaðilum er sömuleiðis veitt sjálfstæð heimild til að upplýsa Þjóðskrá Íslands, allt í þeim tilgangi að skráning verði sem réttust.

Þá er það nýmæli í frumvarpinu að Þjóðskrá Íslands er veitt heimild til leiðréttingar á augljósum villum við skráningar. Þinglýstur eigandi og þeir sem hagsmuna hafa að gæta geta óskað eftir því við Þjóðskrá Íslands að einstaklingar verði skráðir af eign séu þeir án heimildar í húsnæði sem eigandinn er skráður fyrir. Er talið að heimild þessi leiði frekar til réttrar skráningar. Hinum þinglýsta eiganda er hins vegar óheimilt að afskrá maka sinn af eign nema fyrir liggi staðfesting sýslumanns á skilnaði hjóna eða formlegt samþykki hans sé til staðar um afskráningu af eign.

Miðað er við að ekki verði hægt að leiðrétta skráningu lögheimilis lengra aftur í tímann en eitt ár frá því að beiðni berst. Svo sem fram hefur komið er meginmarkmið almannaskráningar að endurspegla raunverulega og rétta stöðu einstaklings. Nauðsynlegt er að afmarka rétt til afturvirkni skráningar því að eins og fram hefur komið eru ýmis réttaráhrif háð skráningu í þjóðskrá.

Þar sem Þjóðskrá Íslands þarf að gera ýmsar breytingar á kerfum sínum, m.a. til að koma upp lögheimilaskrá og staðfangaskrá auk þess sem kynna þarf fyrirhugaðar breytingar laganna, þykir rétt að hafa gildistökuákvæðið rúmt. Miðað er við að lögin taki gildi 1. janúar 2019, samanber 19. gr.

Þá er gert ráð fyrir bráðabirgðaákvæði um frestun gildistöku þess ákvæðis frumvarpsins sem mælir fyrir um skráningu lögheimilis fólks í tilteknar íbúðir. Að lokum er gert ráð fyrir að bráðabirgðaákvæði gildandi laga um heimild til að viðhalda skráningu lögheimilis í skipulagðri frístundabyggð verði óbreytt.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.