148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Það er vissulega fagnaðarefni að verið sé að taka þessa löggjöf til endurskoðunar og færa til nútímahorfs miðað við breytta samfélagshætti. En mér leikur forvitni á að vita hvers vegna ekki er um leið tekið á skiptri búsetu barna, þ.e. skiptu lögheimili, sem mér þykir hafa verið í allri almennri umræðu miklu brýnna vandamál en það sem hér er lýst sem megintilgangi löggjafarinnar um skipt lögheimili hjóna.

Það snýr að rétti foreldra sem fara með sameiginlegt forræði til að geta fylgst með framgangi barna sinna og átt greiðan aðgang að upplýsingum og réttindum barnsins til skipts lögheimilis, eins og raunar skýrsla, sem unnin var á vegum innanríkisráðuneytisins, lagði ríka áherslu á og var fagnað hér í þinginu fyrir um tveimur árum síðan.