148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en ég ítreka vonbrigði mín.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Sérstaklega var skoðað hvort börn sem búa til jafns hjá foreldrum sem hafa sameiginlega forsjá og eru ekki í sambúð eða hjúskap geti átt tvöfalt lögheimili. Við mat á því var horft til skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum sem lögð var fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016 og skýrslu sama hóps frá mars 2017. Talið er að erfitt geti verið fyrir sveitarfélög að uppfylla skyldur sínar í þessu samhengi og var því ekki talið rétt að heimila skráningu tvöfalds lögheimilis.“

Mér sýnist því að með frumvarpinu sé í raun verið að slá af möguleikann á tvöfaldri lögheimilisskráningu. Ég hefði gjarnan viljað sjá að samtímis væri þá í það minnsta komið fram með það fyrirkomulag sem stjórnvöld hugsuðu sér til frambúðar því að ég held að þetta sé miklu brýnna mál fyrir fjölskyldur í landinu, sem snýr að skiptri búsetu barna og réttindum foreldra og barna í því samhengi, og hefði verið mjög æskilegt að stjórnvöld hefðu tekið af allan vafa um það hvernig því yrði háttað til frambúðar en ekki aðeins slegið af annan hluta þess máls eins og hér er gert.