148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:20]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki verið að slá eitt eða neitt af. Undanfarin ár hefur staðið yfir ítarleg greiningarvinna á því hvernig rétt sé að fara með skráningu barna í þessum tilvikum, þegar foreldrar hafa skilið og börn búa til jafns hjá báðum foreldrum. Vinnan var á forræði innanríkisráðuneytisins þar sem samgöngu- og sveitarstjórnarmál, þjóðskrá, barnalög og önnur mál er heyra undir dómsmálaráðuneytið voru. Þegar verið var að vinna frumvarpið — og það er mikilvægt að þær breytingar sem hér eru komi fram — ákvað starfshópurinn að setja það einfaldlega í hendur dómsmálaráðherra; barnalögin eru á forræði dómsmálaráðherra. Ég vænti þess að dómsmálaráðherra komi fram með tillögur.

En það tekur ákveðinn tíma. Það þarf að taka af skarið með skráningu barna og réttaráhrif þeirrar skráningar. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er málefni sem er víða til umræðu. Ef barn er með lögheimili á einum stað (Forseti hringir.) og ákveðna tegund af búsetu á öðrum fylgja búsetunni ákveðin réttindi, t.d. réttur foreldris til greiðslu bóta o.fl. En í þessu frumvarpi er þó það nýmæli að hægt er að fara að skrá aðsetur sem ég held að skipti miklu máli, ekki síst fyrir feður sem oft eru utanveltu þegar barnið er skráð með lögheimili hjá móður í grunnskólanum en ekki er til nein aðsetursskráning hjá föður.