148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, hæstv. ráðherra verður bara að afsaka að það gætir ákveðinnar tortryggni hjá þingmanninum. Kannski sérstaklega vegna þess að í ákvæði 19. gr. frumvarpsins um gildistöku kemur fram að lögin eigi að taka gildi 1. janúar 2019 nema ákveðin ákvæði sem taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2020. Þetta tiltekna ákvæði er varðar börn og lögheimili þeirra er í skoðun í ráðuneytinu og maður veltir fyrir sér hvers vegna ekki var einfaldlega tekið af skarið þar.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því sem kemur fram í greinargerðinni að einhver tregða sé hjá sveitarfélögum að skrá börn með tvöfalt lögheimili. Maður veltir fyrir sér, sérstaklega vegna orða hæstv. ráðherra um breytingar á samfélaginu, um mikilvægi kynjajafnréttis og þess háttar, þegar meginreglan hjá okkur er orðin sameiginleg forsjá og mjög algengt að börn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum, hvers vegna sé þessi mikla tregða hjá stjórnvöldum að tryggja jafnrétti barnanna og jafnrétti foreldranna.