148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:26]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að það sé ekki nein sérstök tregða í þessu. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að menn vandi vel til vinnunnar. Ég er búinn að útskýra að þau mál er þetta varðar heyra undir dómsmálaráðherra sem fer með forræði barna og barnalaga.

Bráðabirgðaákvæðið um að tvö atriði taki ekki gildi fyrr en ári síðar er einfaldlega af tæknilegum ástæðum. Þjóðskrá Íslands er að uppfæra kerfi sín um þessar skráningar og staðfangaskrá. Það þarf að kynna fyrirvara breytingarinnar. Þess vegna er gildistökuákvæði rúmt en bráðabirgðaákvæði haft enn rýmra svo að tryggt sé að þjóðskrá geti sinnt verkefninu.

Ég held að það sé mjög jákvætt að hægt sé að skrá aðsetur barna þegar þau búa til jafns hjá báðum foreldrum sínum. Við munum síðan fjalla um málið í heild hvað þetta varðar þegar frumvarp dómsmálaráðherra kemur fram.