148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í þessum breytingum, sem eru samt allnokkrar og þó nokkur nýmæli, er farin varfærin leið vegna þess að það skiptir máli þegar kemur að grunnskráningum borgaranna að ekki sé farið offari. Ég er sammála hv. þingmanni í því.

Hins vegar er jafn nauðsynlegt að ríkisvaldið eða samfélagið hafi einhverja yfirsýn yfir hvar borgararnir búa og hvaða réttindi þeir hafa með tilliti til búsetu. Við gerum til að mynda kröfur um að húsnæði fólks sé af ákveðnum gæðum og gert með tilliti til vissra staðla. Skipulag sveitarfélaga gengur út á að sums staðar megi búa og annars staðar ekki. Þess vegna skiptir máli að grunnskráningarkerfið sé í einhverju samræmi við það.

En það er alveg rétt að hér er farin varfærin leið í breytingum vegna þess að við viljum fara varlega.