148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni einnig fyrir mjög áhugaverða spurningu. Ég held að það sé nauðsynlegt, eins og reyndar í hinu tilvikinu, og eðlilegt að nefndin fari yfir það, fái hin lögfræðilegu rök, rök með og á móti, sem við höfum metið í ráðuneytinu. Ég held að það sé til verulegra bóta að menn geti skráð lögheimili sitt, upp á ákveðin réttindi, á hjúkrunarheimilum. Frumvarpið tekur ekkert sérstaklega á þessu atriði er varðar annað en það að heimilt er fyrir hjón að hafa lögheimili hvort á sínum staðnum. En hvernig réttindin eru tryggð að öðru leyti er eitthvað sem ég held að nefndin þyrfti að fara sérstaklega ofan í.