148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:53]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mér datt í hug að koma í pontu og ræða þetta mál þegar ég heyrði nefnt hugtakið aðsetur. Ég get deilt skemmtilegri sögu frá mínu gamla heimalandi sem byrjaði á því að vera með þýskt skriffinnskukerfi og síðan komu Sovétmenn ofan á það og krydduðu með sínum hugmyndum þannig að niðurstaðan varð stundum dálítið skrautleg. Á þeim tíma sem ég bjó enn í Póllandi var t.d. hægt að hafa lögheimili sem átti að vera aðalheimilisfangið manns. Ef fólk flutti tímabundið í nám eða í eitthvert starf gat það haft tímabundið lögheimili einhvers staðar. Ef menn fóru síðan í lengra sumarfrí eða heimsóttu vini sína í annarri borg áttu þeir lögum samkvæmt að ganga inn á lögreglustöð, tilkynna það og þá voru menn komnir með tímabundið aðsetur. Einn og sami einstaklingurinn gat því haft þrjú ólík heimilisföng á einum og sama tímanum. Pólskar ríkisstofnanir og önnur samtök hafa stundum beðið fólk að tilgreina öll þessi heimilisföng í öllum mögulegum og ómögulegum skjölum og bæta síðan fjórða við sem er póstfang, þ.e. hvert lögheimilið er, tímabundna lögheimilið, tímabundið aðsetur og svo vilja þau vita hvar maðurinn „actually“ býr, bara til að hægt sé að gera eitthvað fyrir hann.

Ég er ekkert viss um að fjölgun heimilisfanga sem ríkið heldur utan um þurfi að vera af hinu góða en að öllu gríni slepptu las ég þetta frumvarp örlítið með þeim augum að velta því upp almennt hvort við séum að reyna að gera eitthvað betra fyrir stofnanir eða fólk. Ég er ekki kominn niður á einhvern endanlegan dóm hvað það varðar. Ef maður lítur t.d. yfir greinargerðina um samráðið sér maður að þar er talað um hópinn sem var skipaður og þar voru Þjóðskrá Íslands, Persónuvernd, ríkisskattstjóri, Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar, Útlendingastofnun, Vinnueftirlit, Samband íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneyti, Fjölmenningarsetur, aðilar frá tryggingafélögum, samtök sumarhúsaeigenda, utanríkisráðuneytið og Vegagerðin. Stofnanir voru sem sagt í miklum meiri hluta þeirra sem lögðu hönd á plóginn við að semja þetta frumvarp. Ég held að það geti í einhverjum tilfellum sést, þó ekki öllum og ég ætla að nefna hluti sem ég held að séu til bóta sem sumir hafa kannski eilítið hæðst að en eru engu að síður góðir. Síðan ætla ég að nefna hluti sem ég held að séu ekki endilega til bóta fyrir venjulegt fólk en geti verið til bóta fyrir stofnanir.

Fyrst er að nefna 5. gr. þar sem, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom að, er þessi skemmtilega 1. mgr.:

„Hjón eiga sama lögheimili. Hjónum er þó heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum.“

Maður verður að fara úr skónum — eða ekki, algjörlega skýrt. Maður reynir að vera sanngjarn í garð þeirra sem sömdu frumvarpið en málsgreinin hljómar vissulega algjörlega tilgangslaus því að hún kveður ekki á um neitt en stundum er það þannig í íslenskum rétti að ef ákvæði sem hefur verið til staðar áður, sem er þá að hjón skuli eiga sama lögheimili, er einfaldlega fellt út án þess að annað komi í staðinn vita þeir sem eiga að vinna eftir lögunum ekki hvað á að taka við. Ég ímynda mér að ásetningurinn hafi verið sá því að annars myndum við hugsanlega fara að vitna í eldri fordæmi um að þetta hafi alltaf verið svona. Vonandi getum við skýrt þetta í meðförum þingsins.

Síðan er reyndar í 2. gr. talsverð breyting sem ekki mjög margir hafa fjallað um, sú að ef þetta frumvarp nær fram að ganga verður lögheimili fólks skráð í tiltekna íbúð. Það er ekki þannig í dag. Lögheimili allra sem eiga heima í tilteknu fjölbýlishúsi er skráð á nákvæmlega sama stað. Þetta er stofnunum oft til vandræða og kannski í einhverjum tilfellum fólki líka en við verðum að hafa í huga að þetta hefur í för með sér að mjög margir Íslendingar munu þurfa að tilgreina nánar í hvaða íbúð þeir eiga heima þannig að það verður hugsanlega smáskriffinnska í kringum þetta fyrir fólk.

Það er eitt hérna sem hæstv. ráðherra nefndi, skráning þegar komið er inn í landið. Um hana er fjallað í 14. gr. og þar er tekið fram að nú þurfi að skrá lögheimili þegar komið er inn í landið með því að mæta í eigin persónu upp í Þjóðskrá Íslands en ekki að gera það hjá lögreglu eða í tilteknu sveitarfélagi. Það er skýrt í umfjöllun um 14. gr. þannig að samkvæmt gildandi lögum um tilkynningar aðsetursskipta hafi einnig verið hægt að skrá lögheimili hjá sveitarstjórnum og lögreglu en sú heimild sé felld úr gildi með frumvarpi þessu. Í fámennu samfélagi er óþarft og til kostnaðarauka að hafa skráningar á fleiri stöðum. Það þarf sérhæfða þekkingu og þjálfun til að lesa úr og meta skilríki, hvort sem eru erlend eða innlend, m.a. til að skoða hvort þau séu fölsuð. Auðvitað getur maður skilið þetta út frá sjónarhorni viðkomandi stofnana en það verður að segjast að fyrir einstaklinginn er til hægðarauka að geta gert þetta án þess að þurfa að mæta á svæðið í eina tiltekna stofnun og geta gert þetta í sínu eigin sveitarfélagi eða nálægu lögregluembætti.

Í umfjöllun um 15. gr. segir:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að Þjóðskrá Íslands fái heimildir til að afla upplýsinga um búsetu einstaklinga hjá stofnunum eins og t.d. Tryggingastofnun, Sjúkratryggingum Íslands, Lánasjóði íslenskra námsmanna, ríkisskattstjóra, tollstjóra, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, sveitarfélögum og lögregluembættum, sem og fyrirtækjum í einkarekstri þar sem varðveittar eru upplýsingar um heimilisföng, t.d. hjá símafélögum, bönkum, kortafyrirtækjum“ — og Facebook, það stendur ekki en það má skilja það þannig að það væri innan þessa ramma. — „Er umræddum stofnunum og lögaðilum sömuleiðis heimilt að veita slíkar upplýsingar bæði vegna óska Þjóðskrár Íslands og fyrir eigið tilstilli. Tilgangurinn er að lögheimilisskráningar séu ávallt réttar bæði vegna almannahagsmuna sem og til að vernda lögmæta hagsmuni borgara landsins og hins opinbera.“

Ég bendi einungis á að þessar heimildir eru, a.m.k. miðað við greinargerð, dálítið rúmar þannig að við skulum hafa það í huga og aftur spyrja okkur: Er þetta til hægðarauka fyrir einstaklinginn eða er þetta til hægðarauka fyrir þær stofnanir ríkisins sem hér um ræðir?

Loks er eitt, algjörlega innan sama hugmyndakerfis, sem hefur verið nefnt hér, hin tvöfalda lögheimilisskráning sem hefur ekki ratað inn í þetta frumvarp með þeim skýringum sem ráðherra hefur gefið að það sé á forræði annars ráðherra þó að ríkisstjórnin sé gagnvart okkur í þinginu ein og óskipt. Ég vildi heldur að þetta færi inn á sama tíma sé þess kostur vegna þess að eins og margir hafa bent á væri það dæmi um breytingu sem væri svo sannarlega til hægðarauka fyrir marga, myndi endurspegla breytt fjölskyldumynstur margra og er breyting á því sem áður var. Í þessu fagna ég þeirri nálgun í frumvarpinu að veita rúma fresti til aðlögunar. Mér finnst að það mætti alveg skoða ef það er mikill áhugi hjá þinginu, sem ég skynja að sé, að búa þannig um hnúta að börn sem búa á tveimur stöðum geti verið skráð með réttum hætti, í rauninni í takt við byggðamynstur, í þjóðskrá. Mér finnst fara betur á því að veita jafnvel enn rýmri frest fyrir aðlögun til þjóðskrár vegna þess að þar er gagnagrunnur sem tengist inn í marga aðra gagnagrunna og það þarf auðvitað að huga vel að því. Ég held að það sé líklegra til árangurs en að treysta einungis á að það verði gert einhvern veginn í framtíðinni. Ég held að í þessum tilfellum ætti að nýta vel heimildir til að hafa rúma fresti til aðlögunar en eins og ég segi skil ég hvað ráðuneytið er að fara í þessum efnum en velti stundum fyrir mér hvort hér hafi ekki of mikið verið hugsað um það sem kann að vera gott fyrir stofnanir ríkisins og of lítið um það sem kann að vera til hægðarauka fyrir borgara landsins.