148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Einu sinni fór þingmaður í pontu og sagðist ekki ætla að lengja umræðuna en lengdi síðan umræðuna.

Ég verð að koma aðeins inn á það sem hefur verið nefnt hér og spurt um af nokkrum öðrum hv. þingmönnum í sambandi við skipt lögheimili barna, þ.e. að börn geti haft tvö lögheimili.

Réttindi foreldra gagnvart börnunum geta verið æðimisjöfn eftir því hvorum megin barn hefur lögheimili ef foreldrarnir búa ekki lengur saman eða hafa jafnvel aldrei búið saman. Og jafnvel þótt sameiginlegt forræði sé og jafnvel þótt barnið sé í viku í einu hjá hvoru foreldri og báðir foreldrar í fullkomnu sætti við hvort annað og enginn ágreiningur til staðar milli þeirra í sambandi við barnið, þá veldur þetta samt því að réttindastaða foreldra er æðimisjöfn eftir því atriði hvar lögheimili barnsins er skráð.

Eins og ég nefndi hér rétt í lok síðustu ræðu minnar gaf þáverandi hæstv. innanríkisráðherra út skýrslu á 145. þingi um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur stöðum. Þar er farið frekar ítarlega yfir möguleikana í þeim efnum. Ein hugmyndin er sú sem er sennilega algengust í umræðunni, þ.e. að börn geti haft tvö lögheimili. Það virðist einfalt og lítur bara út eins og eitt stykki SQL-skipun í skipanaskel fyrir nördum eins og mér, en svo kemur í ljós að þetta er víst ægilega flókið, ægilega mikið vesen og veldur mikilli flækju og er ægilega kostnaðarsamt og svoleiðis.

Ég ætla ekki að rekja þann rökstuðning sem er fyrir því í skýrslunni, hann kemur fram þar, enda er flækjustigið kannski ekki helst byggt á því í hvernig töflu þjóðskráin er geymd hjá Þjóðskrá Íslands, heldur kannski frekar hvernig upplýsingarnar yrðu meðhöndlaðar og eitthvað í þeim dúr. Eins og ég segi, ég læt rökstuðninginn í skýrslunni duga.

Hin leiðin nefnilega, sem felur ekki í sér að börn séu með tvö lögheimili, er að laga lögin sjálf þannig að lögheimilisskráning barnsins hafi ekki þessi rosalegu áhrif á réttindi foreldranna. Það hefði maður haldið að væri miklu flóknara verkefni, en niðurstaða starfshópsins sem skrifar þessa skýrslu er að það sé einfaldari leið og það má svo sem segja að það sé snyrtilegri leið ef markmiðið er að afmá úr lögunum tilætlunarsemi gagnvart því hvernig fólk kýs að lifa sínu lífi.

Nú vill svo til að ég öðlaðist sérstakan áhuga á þessu máli á sínum tíma og sendi inn fyrirspurn til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra hvort hæstv. ráðherra hefði kynnt sér niðurstöðu starfshópsins og hvað hann hygðist gera í kjölfarið. Þá komu fram þær gleðifregnir, og ég ætla nú að lesa hérna beint upp úr svarinu, með leyfi forseta:

„Hefur dómsmálaráðuneytið þegar óskað eftir tengiliðum frá fyrrnefndum ráðuneytum vegna fyrirhugaðrar vinnu við frumvarp til breytinga á barnalögum. Lagt var til að hvert ráðuneyti semdi drög að breytingum á þeim lagaákvæðum sem undir það heyra sem yrðu síðan hluti af bandormi með frumvarpi til breytinga á barnalögum sem dómsmálaráðherra legði fram. Tengiliðir hafa nú verið tilnefndir frá hverju ráðuneyti og er fyrirhugað að vinna við frumvarpið geti hafist í febrúar.“

Þetta svar barst einmitt í febrúar síðastliðnum. Samkvæmt þessu er vinna í gangi um að laga lagabálkinn þannig að þessi lögheimilisskráning skipti ekki svona ægilega miklu máli.

Ég er auðvitað bara á sama stað og allir aðrir. Mér finnst í fljótu bragði einfaldara að hafa tvö lögheimili, hafa tvo dálka fyrir lögheimili, en svo kemur í ljós að það er víst eitthvað ægilega flókið. Því er farin þessi leið.

Það er þó nokkuð af reglum og lögum sem þarf að fara yfir. Þær eru útlistaðar undir liðnum 8.1.2.4 á bls. 78 í skýrslunni. Skýrslan var lögð fram á 145. þingi. Þar er listi yfir þó nokkuð af lögum og reglum sem þarf að breyta. Það er ekki víst að þetta sé endilega tæmandi listi í sjálfu sér vegna þess að í skýrslunni stendur að m.a. þurfi að breyta „eftirtöldum lögum og reglugerðum“ o.s.frv.

En eins og ég sagði áðan, fyrst þessi leið er farin þá er hún á ákveðinn hátt snyrtilegri. Og eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan tel ég ekki að lögheimilisskráning eða heimilisskráning eigi að spila þetta hrikalega stóra hlutverk í okkar lífi almennt. En mér fannst rétt að koma hingað upp og nýta akkúrat þann tíma sem ég hafði til að gera grein fyrir þessum þætti málsins.