148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:11]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir mjög yfirgripsmikla yfirferð um skýrslu nefndarinnar og hvaða leiðir eru lagðar til þar. Hv. þingmaður kom aðeins inn á það að þetta snýst bæði um hagsmuni barnanna og hagsmuni foreldranna. Við sem höfum starfað í fjölskyldugeiranum vitum mjög vel hvað það skiptir miklu máli fyrir börnin og foreldrana að njóta samvista. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á að samskipti og samvera með báðum foreldrum skiptir gríðarlega miklu máli fyrir uppvöxt barna.

Það er mikilvægt að tryggja þessar samvistir. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá er þetta mjög oft vandamál jafnvel þegar engin vandamál eru til staðar á milli foreldranna. Allir eru kannski glaðir og ánægðir með skilnaðinn og samskipti varðandi börnin eru góð og annað slíkt, en fólk samt alltaf að ganga á vegg varðandi upplýsingar um börnin út af lögheimilisskráningu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að það skipti hreinlega máli varðandi velferð barna að þessu verði breytt.